Mikið er ég nú annars heppin að búa á Kárastígnum. Róleg gata, fínir nágrannar og allt það, en það er samt ekki þess vegna. Það eru kyrrlátar götur og gott fólk út um allt. Nei, mér finnst ég vera heppin vegna þess að ég get farið út á góðviðrisdegi eins og núna, rölt á milli búða og á hálftíma er ég kannski búin að koma við í Heilsuhúsinu að kaupa til dæmis kryddjurtir eða kornmeti, í Pipar og salt að kaupa Darjeeling-te, hjá Jóa í Ostabúðinni að kaupa osta og grafinn hrossavöðva eða hráskinku, í Te og kaffi að kaupa ómalað kaffi, í Vínberinu að kaupa súkkulaði, í Bernhöftsbakaríi að kaupa brauð, og á heimleiðinni kem ég kannski við í Aski Yggdrasils og kaupi grænmeti eða ávexti. Reyndar mundi ég aldrei ná þessu á hálftíma en það er aðallega vegna þess að á flestum stöðum dvel ég yfirleitt við og skoða hvað er til. Fiskbúðin er ekki alveg inni í hringnum og Filippseyjar ekki heldur, en þetta er svosem ekki mikið úr leið. Ekki Ríkið heldur og ég geng hvort eð er framhjá því á hverjum degi. Og svo er Krambúðin handan við Skólavörðustíginn fyrir allt þetta hversdagslega.
Ég veit að það er fullt af fólki sem finnst þetta engin sérstök heppni, það vill heldur kaupa allt á einum stað og spyr af hverju ég fari ekki bara t.d. í Hagkaup í Kringlunni. En jafnvel þótt ég væri á bíl, og jafnvel þótt ég nennti inn í Kringlu eða eitthvað á hverjum laugardegi, þá er hitt bara svo miklu skemmtilegra. Bara ef væri góð kjötbúð einhversstaðar í nágrenninu, þá væri lífið næstum fullkomið.
Eitthvað fölt og gegnsætt leið hér inn eftir ganginum áðan og hvarf inn í herbergi efnafræðistúdentsins. Það hefur líklega verið gaman í Borgarfirðinum.