Ég geri mér alveg grein fyrir að kjúklingabaunir er alls ekki gott heiti. Baunirnar tengjast kjúklingum ekki neitt. Þetta eru ekki einu sinni baunir. Ekki heldur ertur, svo að það bjargar svosem engu að kalla þetta kíkertur eða eitthvað slíkt. Þetta eru fræ af einhverjum runna. Þær eru góðar samt.
Það má alveg gera athugasemdir við dálæti mitt á kjúklingabaunum, og ekki síst í samsetningunni fiskur og kjúklingabaunir. Ég bakka ekki með það, þetta er besti matur. Og þeir sem eru fyrirhyggjusamir og nenna að leggja kjúklingabaunir í bleyti daginn áður og sjóða þær svo gera það auðvitað. Ég á alveg til að gera þetta líka en það er bara svo fjári þægilegt að nota dósabaunirnar. Og þá getur maður ákveðið með mínútu fyrirvara að nota þær í matinn í staðinn fyrir sólarhring áður. Eins og ég gerði til dæmis áðan.
Ég ætlaði eiginlega að hafa allt annað en kom seint heim úr vinnunni og efnafræðistúdentinn tilkynnti mér um leið og ég kom inn úr dyrunum að hann þyrfti að mæta tímanlega á kóræfingu og það mætti ekki bregðast, Þorgerður vildi fá tenórana sína stundvíslega klukkan hálf átta. Svo að ég steinhætti við það sem ég hafði ætlað að gera, setti pönnu á gasið, fann pepperónísneiðar í ísskápnum og steikti þær, steikti fiskinn, náði í kjúklingabaunadós í jarðskjálftabirgðirnar inni í búri og hellti baununum yfir, bætti einhverju við, bjó til einfalt salat og kvöldmaturinn tilbúinn á sirka 12 mínútum. Hvort drengurinn mætti á réttum tíma skal ósagt látið, enda hætti hann ekki að borða fyrr en allt var búið. Hann kom allavega heim áðan og gerir sig frammi í eldhúsi líklegan til mikillar kaffidrykkju ásamt erki-Húnvetningi einum af Guðlaugsstaðaætt sem var með honum í för, svo að þeir hafa lifað æfinguna af. En hér er uppskriftin:
Tenóraýsa
6-700 g fiskflök, roð- og beinhreinsuð (t.d. ýsa en ekki skylda)
3-4 msk hveiti
nýmalaður pipar
salt
12-15 pepperónísneiðar
2 msk olía
1 dós kjúklingabaunir
150 g kirsiberjatómatar
nokkrar timjangreinar, eða ögn af þurrkuðu timjani
Fiskurinn skorinn í bita og þeim velt upp úr hveiti krydduðu með pipar og salti. Panna hituð, pepperónísneiðunum raðað á hana og þær steiktar þar til þær eru stökkar og mestöll fitan runnin úr þeim. Teknar upp með gataspaða og settar á disk. Olíunni bætt á pönnuna og svo er fiskstykkjunum raðað á hana og þau steikt við góðan hita í 1-2 mínútur á annarri hliðinni. Snúið. Mestöllum leginum hellt af kjúklingabaununum og þeim síðan hellt yfir. Kirsiberjatómötum og timjani bætt á pönnuna (tómötunum helst stungið niður á milli fiskbita svo þeir snerti botninn), pepperónísneiðum dreift yfir og látið krauma við meðalhita í örfáar mínútur, eða þar til fiskurinn er rétt steiktur og baunirnar heitar. Borið fram á pönnunni, t.d. með soðnum kartöflum. Eða bara góðu salati.