Ég tók hjálminn ofan af geitunginum fyrir hálftíma, fór inn og lokaði. En þegar ég leit út áðan sat hann kyrr nokkurn veginn á sama stað á borðinu og lét lítið fara fyrir sér (nei, hann er ekki dauður). Ég er ekkert á leiðinni út á svalir á næstunni. Í staðinn dreg ég efnafræðistúdentinn með mér á eitthvert kaffihús. Vonandi verður geitungurinn búinn að gefast upp á biðinni þegar ég kem aftur og hættur að hyggja á hefndir.
19.7.03
Ég held að geitungurinn sem ég lokaði undir glerhjálmi á borðinu hér á svölunum áðan sé að verða verulega pisstoff.
Ég veit ekki alveg hvað hefur orðið um það sem ég bloggaði í fyrri hluta júlí en það er þarna einhvers staðar úti í cyberspace og birtist án efa þegar minnst varir.
Ég veit ekki hvernig stendur á því að ég get ekki sent tölvupóst heimanað frá mér, bara tekið við honum. En einhvern tíma fyrir haustið kem ég mér örugglega að því að láta kippa þessu í lið.
Ég veit ekki hvenær pósthólfið á aukanetfanginu mínu fylltist og nú get ég ekki einu sinni eytt gömlum skeytum til að rýma til í því. Þannig að ég veit heldur ekki hvort tölvupósturinn sem ég sendi þaðan sem svar við mayday-skeyti áðan fór rétta leið. En það kemur væntanlega í ljós.
Ég veit ekki hvort ég fæ tölvuna sem ég var með einhvern tíma aftur úr viðgerð og þarf að skila þessari eða hvort ég á að líta á hana sem varanlegt lán og setja inn fídusa og dót sem ég var með á hinni. En mér liggur svosem ekkert á með það, ekki fyrir sumarfrí allavega.
Ég er semsagt fyrir löngu búin að ákveða að vera ekkert að ergja mig eða stressa mig á tölvumálum. Þau eru yfirleitt meira og minna í skralli hvort eð er og það er alveg nógu margt sem ég hef forstand á sem ég get ergt mig á, ég þarf ekki á tölvum að halda ef mig langar að hafa allt á hornum mér.
Svo er veðrið allt of gott til þess líka.
18.7.03
Hitinn á Krít er ekki nema sirka tíu stigum hærri en hér, sá ég á netinu áðan, svo að sennilega er hitabylgjan búin. Annars fer að styttast í verunni hjá gagnlega barninu og hennar fjölskyldu, þau koma á mánudaginn.
Ég fékk enga svanga unga menn í kvöldmat, þeir ákváðu allir sem einn að fara á eina af tíu bestu baðströndum Evrópu og kaupa sér eitthvað að borða á leiðinn. Og taka náttúrlega með nóg af bjór. Efnafræðistúdentinn er í helgarfríi.
Það er annars eins gott að ég á slatta af ólesnum bókum. Ég held að það sé varla nokkur kjaftur sem ég þekki í bænum og ég var að athuga sjónvarpsdagskrána. Mig langar ekki að sjá sannsögulega mynd sem gerist á indíánaslóðum í Wyoming (hún heitir meira að segja Á indíánaslóðum). Mig langar ekki að sjá enn eina Star Trek-mynd. Ég þekki bandaríska konu sem er svo mikill Trekkari að hún tók þátt í að skipuleggja fyrsta Trekkaraþingið, nítjánhundruðsextíuogsúrkál, en henni tókst ekki að vekja áhuga minn á fyrirbærinu, hvorki sjónvarpsþáttunum né myndunum. Ég hef séð Regarding Henry, einu sinni var nóg. Skjár einn er bara endursýningar á þáttum sem ég er annaðhvort búin að sjá eða hafði ekki áhuga á þegar þeir voru sýndir fyrst og enn minni núna. Hinar fjörutíuogeitthvað stöðvarnar - æ, ég held ekki. Danska sjónvarpið býður upp á mynd með Kevin Costner, sem er ekki minn maður. Ég nenni ekki út á vídeóleigu (það eru innan við fimmtíu metrar.) Ergó - ég fer snemma í rúmið með bók.
Á svona degi á maður auðvitað ekki að sitja fyrir framan tölvuna, heldur í kvöldsólinni úti á svölum með rauðvínsglas og bók. (Ég var nærri búin að skrifa rauðvínsglas, sígarettu og bók, en svo mundi ég skyndilega að það eru fimmtán ár síðan ég hætti að reykja. Skrítið að það kemur enn fyrir að ég gleymi því, þótt mig hafi ekki langað í sígarettu í mörg mörg ár.)
En í staðinn sit ég úti á svölum með rauðvínsglas og tölvu. Mig langar svolítið í ost með rauðvíninu en ég nenni ekki að standa upp til að sækja hann.
Efnafræðistúdentinn er í körfu uppi við Austurbæjarskóla með vöskum hópi ungra sveina. Ég á alveg eins von á að fá þá hingað á eftir sársvanga en það verður þá bara útbúið salat handa þeim. Ég nenni ekki heldur að elda í dag. Reyndar fór ég að hugsa um það áðan hvort ég mundi kannski aldrei nenna að elda ef ég byggi sunnar á hnettinum en ég held að það sé rangt. Þetta er bara óvaninn. Þegar við Boltastelpan vorum úti á Ítalíu í fyrrahaust var ég farin að stúdera kjörbúðir grimmt eftir nokkra daga og undirbúa eldamennsku, þrátt fyrir mótmæli barnabarnsins, sem vildi bara fá sína Pizza Margherita og ekkert vesen. Samt gat ég fengið hana til að borða kornhænurnar sem ég matreiddi og eitthvað fleira sem hún hafði ekki áður smakka. Kanínu var mér harðbannað að kaupa í matinn og ég var minnt á að hún hefði sko átt kanínu einu sinni (brjálaða kanínan í óhreinatauskörfunni, ég hef minnst á hana áður hér) og það væri ljótt að borða þær.
En ég var nú líka árum saman þekkt í minni fjölskyldu sem Konan Sem Borðaði Bamba. Það er að segja, hvenær sem ástæða var talin til að telja upp ávirðingar mínar og syndir.
Mér skilst að það sé spáð góðviðri alla helgina. Ég hugsa nú samt að þegar fer að líða að kvöldmatartíma annað kvöld verði ég alveg komin í stuð til að elda aftur. Jafnvel grilla.
17.7.03
Ég nennti ekki að elda í kvöld, síst af öllu að grilla, svo að þegar efnafræðistúdentinn og skylmingastúlkan komu heim af einni af tíu bestu baðströndum Evrópu, þá henti ég bara saman salati handa okkur í kvöldmatinn, frisée-blöndu, túnfiski, kjúklingabaunum, tómötum og vænu stykki af fetaosti úr Ostabúðinni (sem ég tek alltaf fram yfir þennan sem maður kaupir í teningum í krukkum). En svo bakaði ég samt sem áður köku á eftir. Eða eiginlega er þetta ekki kaka, mér finnst það allavega ekki.
Ég átti nefnilega leið framhjá Vínberinu á heimleiðinni úr vinnunni og rak augun í kirsiber sem voru mun ódýrari en venjulega - tæpar 400 krónur bakkinn með - ja, ég giska á um 400 grömm, miða allavega við það í uppskriftinni. Svo að ég ákvað að búa til clafoutis. Clafoutis er franskur eftirréttur, þar sem þunnri deigsoppu (hálfgerðu pönnukökudeigi) er hellt yfir ávexti, upprunalega alltaf kirsiber en á síðari tímum ýmsa aðra ávexti, og svo er þetta bakað þar til deigið eða soppan stífnar. Þetta er ekkert líkt venjulegri köku eða ávaxtaböku, meira eins og búðingur.
Það á ekki að taka steinana úr berjunum, því að það kemur svo mikið bragð úr þeim - þegar þeir hitna skila þeir heilmiklu möndlubragði út í berin og kökuna. Þess vegna á ekki að þurfa nein önnur bragðefni, en ef notaðir eru aðrir ávextir gæti veri gott að blanda t.d. vanillu eða öðru bragðefni saman við deigið.
Kirsiberja-clafoutis
400 g kirsiber
75 g smjör
4 egg
100 g sykur
60 g hveiti
1/2 tsk lyftiduft
salt á hnífsoddi
200 ml mjólk
Ofninn hitaður í 200°C. Berin þvegin og stlikarnir fjarlægðir. Eldfast fat eða bökuform smurt með 1 msk af smjörinu og berjunum dreift í það. Afgangurinn af smjörinu bræddur. Egg og sykur þeytt saman og síðan er hveiti, lyftidufti og salti hrært saman við og svo bræddu smjöri og mjólk. Hellt yfir berin og bakað í u.þ.b. 20 mínútur, eða þar til deigið er stíft (eða næstum stíft) og hefur tekið góðan lit. Kakan borðuð heit, volg eða köld. Gott að strá flórsykri yfir.
Ég var eitthvað að tuða yfir staðalímyndum í kommentum hjá Þórunni Hrefnu áðan. Lét jafnvel í það skína að mér þættu þær ekkert endilega alvondar, allavega ekki jafnháskalegar og manni virðist stundum af skrifum femínista. Svo villtist ég inn á femin.is og las þetta. Þessi illa þýdda grein er uppfyllri af staðalímyndaklisjum en ég hélt að væri hægt. Reyndar þekki ég barn sem er næstum því svona - meira að segja freknótt - , en það er óvart stelpa.
Mér hefur líka alltaf fundist þessar kenningar um tíðahvörf karlmanna (jæja, ókei, breytingaskeið) eitthvað vafasamar. Nú kemur upp úr dúrnum að þetta er bara leti, óhollt líferni og - ekki síst - markaðssetning lyfjafyrirtækja.
16.7.03
Ég rakst á þann fróðleik áðan að í dag eru einmitt 36 ár síðan Arlo Guthrie frumflutti Alice's Restaurant á Newport-þjóðlagahátíðinni. En það heyrist nú ekki oft, ekki í heild allavega. Lagið tekur 22 mínútur í flutningi, enda dugði textinn í heilt kvikmyndahandrit og þurfti litlu að bæta við. Myndin var nú ekkert sérstök, nema kannski atriðið þar sem Arlo sleppur við herþjónustu af því að hann hafði hent rusli á vitlausum stað.
Það er aldeilis að veðrið hefur batnað eftir að Ríkisendurskoðun tók á málinu. Veðurstofan spáir bara besta degi sumarsins hingað til og liggur við að það standist. Það hefði þó alveg mátt vera frídagur líka. En ég fór reyndar heim úr vinnunni um þrjúleytið. Kom við í Te og kaffi og keypti ómalað Cuba Turquino og í Sandholtsbakaríi fékk ég pekanhnetuvínarbrauð og snúða. Með þetta fór ég heim og við efnafræðistúdentinn sátum á svölunum í sólinni og gúffuðum í okkur kaffi og bakkelsi. Hann las Viggó viðutan, ég John Maddox Ford.
Mikið hljóta þeir Fáskrúðsfirðingar og Stöðfirðingar að vera ánægðir með heimabyggð sína sem vilja nefna sameinað sveitarfélag nöfnum eins og Sælusveit, Kæribær eða Paradís. Reyndar komu víst líka fram tillögur um nöfnin Skuldahali, Mistök og Gjaldþrot. Og Suður-Fjarðabyggð.is. Ekki mundi ég vilja búa í Kærabæ, það hljómar eins og nafn á leikskóla. Eða elliheimili. En sum af þessum plássum eru nú kannski lítið annað nú orðið.
Annars eru þessi nýju sveitarfélaganöfn misjafnlega vel heppnuð. Mér finnst til dæmis Snæfellsbær glatað en Vesturbyggð fínt (eins gott það varð ekki Vesturbær). Árborg hef ég aldrei getað fellt mig við. Bláskógabyggð er fínt nafn en enginn veit hvar það er. Sveitarfélagið Skagafjörður ... já. Sjálf er ég alin upp í fríríkinu Akrahreppi, sem er í Skagafirði og Skagafjarðarsýslu, en ekki í sveitarfélaginu Skagafirði (eða á það að vera Sveitarfélaginu Skagafirði?) Hmm, þegar ég skoða þetta átta ég mig á að ég er miklu hrifnari af nöfnum sem enda á -byggð eða -sveit en þeim sem enda á -bær eða -borg. Ætli það sé sveitastelpan í mér sem er að brjótast þarna fram?
Ég er nú ekki alltaf sammála Karli Th. Birgissyni. Bara hreint ekki. En ég get ekki annað en tekið undir hvert orð í greininni sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag (,,Æ, þetta eru nú bara jafnréttislögin").
Nokkrum blaðsíðum framar segir framkvæmdastjóri jafnréttisstofu að þetta sé mjög flókin staða og að ,,jafnréttislögin séu þess eðlis að hægt sé að túlka þau á marga vegu". Einmitt.
Annars finnst mér mjög athyglisvert að það hefur ekki verið minnst á þetta mál einu orði á femínistapóstlistanum.
15.7.03
Tom Jones, vel á minnst - ég hef alltaf séð dálítið eftir því að hafa ekki farið í Tívolí að sjá hann um árið, þegar ég var þar að heimsækja Siggu systur og reyna að fá aðgang að skjalasafni dómsmálaráðuneytisins. Ég var að hugsa um að draga Siggu með mér en það strandaði kannski helst á því að ég átti engar viðeigandi nærbuxur til að henda upp á sviðið - kona á mínum aldri getur ekki farið að hlusta á Tom án þess að grýta hann með nærbuxum, er það? Og það geta ekki verið hvaða naríur sem er. Kannski ef ég hefði átt einhverjar eins og þessar hennar Lulu, sem ég var að lýsa áðan, svona King-Kong-thong ...
Nah, ég veit annars ekki. Tom Jones er dálítið eins og Haukur Morthens. Betri ef maður sér hann ekki.
Í gærkvöldi kom sendill frá póstinum (ekki samt þessi þéttvaxni) með bókasendingu til mín og þar í var To the Nines, nýja (og níunda) bókin í Stephanie Plum-seríunni eftir Janet Evanovich. Mér finnst þessar bækur óborganlega fyndnar og þótt formúlan sé kannskik aðeins farin að slitna get ég hlegið mig máttlausa yfir sumum köflunum - í þessari nýju er til dæmis atriði sem gerist í Vegas, þar sem Lula hendir risastóru skærbleiku G-strengs-nærbuxunum sínum upp á sviðið, beint framan í Tom Jones - sem reynist síðan alls ekki vera Tom Jones, það stendur yfir Tom Jones-eftirhermusamkoma í Vegas - og reyndar líka Elvis-eftirhermusamkoma - og Tom Jones-eftirhermur og Elvis-eftirhermur eru ekki vinir ...
Það er hægt að lesa fyrstu kaflana úr bókinni hérna.
Mér var boðið út að borða á La Primavera í hádeginu, fékk fiskisúpu með aðeins of miklu chili og ravioli með aðeins of miklu smjöri. Ágætt samt. I like being wined and dined by younger men (ókei, ég afþakkaði vínið og þetta var löns en ekki dinner, en ,,I like being lunched by younger men" hljómar bara ekki eins vel).
14.7.03
Ef það er PC í Bandaríkjunum að kalla svertingja ,,African-Americans", hvað á þá að kalla t.d. svertingja í Afríku? African-Africans? Ef maður vill nú vera politically correct?
Ég keypti slatta af útsölukjúklingum frá Búnaðarbankanum í Nóatúni en það voru samt ekki þeir sem voru í kvöldmatinn, því að ég keypti líka kindalundir (eins meyrar og lambalundir en bragðmeiri og ódýrari) og bjó til salat í kvöldmatinn. Salatblandan sem ég var með var hrokkinblaðssalat (frisée), rauðlaufssalat (radicchio) og lambasalat, en það má auðvitað nota hvað sem er - samt gott að blanda saman stökku, beisku salati og svo mildu.
Volgt kindakjötssalat
500 g kindalundir (eða lambalundir)
2 msk ólífuolía
1 msk ferskt esdragon, saxað (eða 1 tsk þurrkað)
1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
nýmalaður pipar
salt
3-4 tómatar (helst plómutómatar)
100 ml hvítvín (eða vatn og skvetta af sítrónusafa)
1 poki salatblanda
1 msk furuhnetur (má sleppa)
Lundirnar snyrtar og himnur e.t.v. skornar af þeim. Skornar í 2-3 bita hver og velt upp úr olíu blandaðri esdragoni, hvítlauk, pipar og salti. Látnar liggja smástund. Grillpanna eða venjuleg panna hituð vel og lundirnar steiktar í 2-3 mínútur á hvorri hlið; snúið einu sinni. Teknar af pönnunni og látnar standa á bretti. Tómatarnir skornir í fjórðunga, settir á pönnuna með hýðishliðina niður, saltaðir ögn og steiktir við háan hita í nokkrar mínútur, þar til þeir eru meyrir og farnir að taka lit. Víni eða vatni hellt yfir og látið sjóða ögn niður. Salatinu dreift á fat. Kjötið skorið í sneiðar og dreift yfir og svo er tómötunum og leginum af pönnunni hellt yfir. Furuhnetunum dreift yfir og borið fram.
Í Fréttablaðinu í dag segir frá konu sem varð þjóðþekkt um heim allan.
Og manni sem poppaði gegnum ísilagða á.
Og Þormóði landnámsmanni Drésasyni.
Og Kjartani, sem meinaði Bolla og hans fólki að dreita.
Og sófa sem skar sig úr hinum sófunum sem í boði voru (ekki skrítið því myndin sýnir stól).
Og rigningu sem fagnaði fólki.
Og dæmigerðri hátíð sem lýsir dæmigerðri veru á slíkum viðburði.
Þá nennti ég ekki að lesa meira.
Veðurstofan þarf að bæta þjónustu sína, segir Ríkisendurskoðun. Miðað við frammistöðuna undanfarnar vikur held ég að það sé rétt. Rigningar eins og í útlöndum um helgina, lækir á götunum og offramboðið á sólarlandaferðum skyndilega horfið og allt uppselt fram á haust. Efnafræðistúdentinn og félagar gáfust upp á útilegum eftir eina nótt og flúðu í bæinn, niðurrignd og hrakin. Ef Ríkisendurskoðun getur gert eitthvað í þessu eru þeir öflugri en ég hélt.
Og svo sit ég hér ein og yfirgefinn því afgangurinn af starfsliði Gestgjafans er í útlöndum að spóka sig, eða að minnsta kosti í sumarfríi. Ef það væri ekki liggur við að ég mundi láta undan freistingunni og skreppa í nokkurra daga ferð til London á morgun. Það er 28 stiga hiti í London. En því miður get ég ekki bara lokað sjoppunni og stungið af (og svo er fólkið sem ég mundi reyna að fá gistingu hjá líklega ekki í bænum). Svo að ég verð bara að sitja hér og taka undir með Ríkisendurskoðun. Veðurstofan þarf að taka sig á.
13.7.03
Fyrsta (og enn sem komið er, eina) fréttin í sexfréttunum hjá Sky News: Fótboltakall er dottinn í það.
Hann minnir mig á einhvern skagfirskan bónda sem ég kem ekki alveg fyrir mig.
Ég var semsagt að breyta skipulaginu í svefnherberginu í gær. Áttaði mig svo á því, þegar ég las um áhyggjur Ernu af því að drukkna í pappírsflóði, og vangaveltur Kattarins í framhaldi af því, að nú er rúmið þannig staðsett að ef verður mikill jarðskjálfti er mikil hætta á að ég kremjist undir sirka hálfu tonni af matreiðslubókum, slatta af orðabókum og Dularfullu leikarahjónunum, sem af einhverri ástæðu hafa villst þarna inn í hillu. En þetta er nú kannski í lagi, var ekki Júlíus Sólnes að gefa einhverjar yfirlýsingar um að jarðskjálftahætta á höfuðborgarsvæðinu væri stórýkt og hús allt of rammlega byggð?
Aftur á móti er ekki lengur hætta á því að ég drukkni í vatnsflóði í rúmi mínu ef bilun verður í lögnum á baðherberginu hjá Skara og Evu Maríu, sem er einmitt beint fyrir ofan þar sem höfðalagið á rúminu mínu var áður. Mér finnst það einhvern veginn raunhæfari hætta, ekki síst af því að það hefur einmitt lekið þarna niður. En það var fyrir nokkrum árum og þá var rúmið á enn öðrum stað. Ég er mikið fyrir skipulagsbreytingar.
Ég ætla bara að gera athugasemd við eitt í Veru. Það er ekki í bloggumfjölluninni. Nei, það er að sjálfsögðu á mataropnunni, sem ég geri reyndar ráð fyrir að sé auglýsing frá Pottagöldrum, en sama er, þetta er sett upp sem efni en ekki auglýsing. Var virkilega enginn sem kom nálægt þessu sem hafði auga fyrir því hvað blár litur, og einkum og sér í lagi dökkblái liturinn sem er á öllum diskunum og stellinu, gjörsamlega drepur allan mat og gerir hann ógirnilegan?
Ég sá einu sinni hjá ljósmyndara nokkrar myndir þar sem búið var að stilla sama réttinum upp á diskum í nokkrum mismunandi litum. Það kom misvel út en maturinn var þó alls staðar girnilegur, nema á bláa diskinum. Þar virkaði hann beinlínis ólystugur og fráhrindandi. Margir átta sig reyndar ekki á þessu fyrr en þeim er bent á það og það getur svo sem verið að blái liturinn verki ekki svona á alla en mér finnst að hann eigi yfirleitt ekki að koma nálægt mat (þó eru til heiðarlegar undantekningar).