Ég veit ekki alveg hvað hefur orðið um það sem ég bloggaði í fyrri hluta júlí en það er þarna einhvers staðar úti í cyberspace og birtist án efa þegar minnst varir.
Ég veit ekki hvernig stendur á því að ég get ekki sent tölvupóst heimanað frá mér, bara tekið við honum. En einhvern tíma fyrir haustið kem ég mér örugglega að því að láta kippa þessu í lið.
Ég veit ekki hvenær pósthólfið á aukanetfanginu mínu fylltist og nú get ég ekki einu sinni eytt gömlum skeytum til að rýma til í því. Þannig að ég veit heldur ekki hvort tölvupósturinn sem ég sendi þaðan sem svar við mayday-skeyti áðan fór rétta leið. En það kemur væntanlega í ljós.
Ég veit ekki hvort ég fæ tölvuna sem ég var með einhvern tíma aftur úr viðgerð og þarf að skila þessari eða hvort ég á að líta á hana sem varanlegt lán og setja inn fídusa og dót sem ég var með á hinni. En mér liggur svosem ekkert á með það, ekki fyrir sumarfrí allavega.
Ég er semsagt fyrir löngu búin að ákveða að vera ekkert að ergja mig eða stressa mig á tölvumálum. Þau eru yfirleitt meira og minna í skralli hvort eð er og það er alveg nógu margt sem ég hef forstand á sem ég get ergt mig á, ég þarf ekki á tölvum að halda ef mig langar að hafa allt á hornum mér.
Svo er veðrið allt of gott til þess líka.