Ég nennti ekki að elda í kvöld, síst af öllu að grilla, svo að þegar efnafræðistúdentinn og skylmingastúlkan komu heim af einni af tíu bestu baðströndum Evrópu, þá henti ég bara saman salati handa okkur í kvöldmatinn, frisée-blöndu, túnfiski, kjúklingabaunum, tómötum og vænu stykki af fetaosti úr Ostabúðinni (sem ég tek alltaf fram yfir þennan sem maður kaupir í teningum í krukkum). En svo bakaði ég samt sem áður köku á eftir. Eða eiginlega er þetta ekki kaka, mér finnst það allavega ekki.
Ég átti nefnilega leið framhjá Vínberinu á heimleiðinni úr vinnunni og rak augun í kirsiber sem voru mun ódýrari en venjulega - tæpar 400 krónur bakkinn með - ja, ég giska á um 400 grömm, miða allavega við það í uppskriftinni. Svo að ég ákvað að búa til clafoutis. Clafoutis er franskur eftirréttur, þar sem þunnri deigsoppu (hálfgerðu pönnukökudeigi) er hellt yfir ávexti, upprunalega alltaf kirsiber en á síðari tímum ýmsa aðra ávexti, og svo er þetta bakað þar til deigið eða soppan stífnar. Þetta er ekkert líkt venjulegri köku eða ávaxtaböku, meira eins og búðingur.
Það á ekki að taka steinana úr berjunum, því að það kemur svo mikið bragð úr þeim - þegar þeir hitna skila þeir heilmiklu möndlubragði út í berin og kökuna. Þess vegna á ekki að þurfa nein önnur bragðefni, en ef notaðir eru aðrir ávextir gæti veri gott að blanda t.d. vanillu eða öðru bragðefni saman við deigið.
Kirsiberja-clafoutis
400 g kirsiber
75 g smjör
4 egg
100 g sykur
60 g hveiti
1/2 tsk lyftiduft
salt á hnífsoddi
200 ml mjólk
Ofninn hitaður í 200°C. Berin þvegin og stlikarnir fjarlægðir. Eldfast fat eða bökuform smurt með 1 msk af smjörinu og berjunum dreift í það. Afgangurinn af smjörinu bræddur. Egg og sykur þeytt saman og síðan er hveiti, lyftidufti og salti hrært saman við og svo bræddu smjöri og mjólk. Hellt yfir berin og bakað í u.þ.b. 20 mínútur, eða þar til deigið er stíft (eða næstum stíft) og hefur tekið góðan lit. Kakan borðuð heit, volg eða köld. Gott að strá flórsykri yfir.