Ég keypti slatta af útsölukjúklingum frá Búnaðarbankanum í Nóatúni en það voru samt ekki þeir sem voru í kvöldmatinn, því að ég keypti líka kindalundir (eins meyrar og lambalundir en bragðmeiri og ódýrari) og bjó til salat í kvöldmatinn. Salatblandan sem ég var með var hrokkinblaðssalat (frisée), rauðlaufssalat (radicchio) og lambasalat, en það má auðvitað nota hvað sem er - samt gott að blanda saman stökku, beisku salati og svo mildu.
Volgt kindakjötssalat
500 g kindalundir (eða lambalundir)
2 msk ólífuolía
1 msk ferskt esdragon, saxað (eða 1 tsk þurrkað)
1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
nýmalaður pipar
salt
3-4 tómatar (helst plómutómatar)
100 ml hvítvín (eða vatn og skvetta af sítrónusafa)
1 poki salatblanda
1 msk furuhnetur (má sleppa)
Lundirnar snyrtar og himnur e.t.v. skornar af þeim. Skornar í 2-3 bita hver og velt upp úr olíu blandaðri esdragoni, hvítlauk, pipar og salti. Látnar liggja smástund. Grillpanna eða venjuleg panna hituð vel og lundirnar steiktar í 2-3 mínútur á hvorri hlið; snúið einu sinni. Teknar af pönnunni og látnar standa á bretti. Tómatarnir skornir í fjórðunga, settir á pönnuna með hýðishliðina niður, saltaðir ögn og steiktir við háan hita í nokkrar mínútur, þar til þeir eru meyrir og farnir að taka lit. Víni eða vatni hellt yfir og látið sjóða ögn niður. Salatinu dreift á fat. Kjötið skorið í sneiðar og dreift yfir og svo er tómötunum og leginum af pönnunni hellt yfir. Furuhnetunum dreift yfir og borið fram.