Veðurstofan þarf að bæta þjónustu sína, segir Ríkisendurskoðun. Miðað við frammistöðuna undanfarnar vikur held ég að það sé rétt. Rigningar eins og í útlöndum um helgina, lækir á götunum og offramboðið á sólarlandaferðum skyndilega horfið og allt uppselt fram á haust. Efnafræðistúdentinn og félagar gáfust upp á útilegum eftir eina nótt og flúðu í bæinn, niðurrignd og hrakin. Ef Ríkisendurskoðun getur gert eitthvað í þessu eru þeir öflugri en ég hélt.
Og svo sit ég hér ein og yfirgefinn því afgangurinn af starfsliði Gestgjafans er í útlöndum að spóka sig, eða að minnsta kosti í sumarfríi. Ef það væri ekki liggur við að ég mundi láta undan freistingunni og skreppa í nokkurra daga ferð til London á morgun. Það er 28 stiga hiti í London. En því miður get ég ekki bara lokað sjoppunni og stungið af (og svo er fólkið sem ég mundi reyna að fá gistingu hjá líklega ekki í bænum). Svo að ég verð bara að sitja hér og taka undir með Ríkisendurskoðun. Veðurstofan þarf að taka sig á.