Bakað í beinni
Jæja, mér tókst að baka piparkökur í beinni útsendingu án þess að kveikja í eða brenna þær við. Eða skera í sundur einhvern kapal, eins og vinnufélagar mínir voru búnir að spá eftir að ég sargaði sundur brauðristarsnúruna á dögunum og sló út rafmagninu. Þeir sögðust mundu vita hvað hefði gerst ef skjárinn hjá þeim yrði skyndilega svartur ...
Ég meiraðsegja klúðraði held ég bara engu. Var þó með varadeig sem ég hafði gert heima oní poka en þurfti ekki að grípa til þess og Boltastelpan, sem var í áhorfendahópnum (og fannst óstjórnlega fyndið að sjá ömmu sína málaða) fékk það með sér heim að baka piparkökur úr. Ekki baka ég meiri piparkökur fyrir þessi jólin. (Reyndar má geta þess að ég þurfti að gera varadeigið tvisvar því að ég klúðraði því fyrra - áttaði mig á þegar ég var búin að hnoða það að ég hafði steingleymt matarsódanum.)
Ég var nú ekki alveg viss hvort þetta gengi upp hjá annarri eins flumbru og mér. En það er gaman að taka sénsa. Held að ég hafi ekkert eyðilagt matargúrúsorðstírinn.
Ekki í þetta skipti.