Ég sé nú ekki mikið til vorsins sem Sigurður lofaði ennþá, þótt sólin sé eitthvað að reyna að brjótast í gegnum skýjahuluna. Og það er hvítflekkótt jörð hér á Seljaveginum.
Mikið er nú annars gott að grillblaði Gestgjafans - sem við hefðum átt að vera að vinna í núna samkvæmt upphaflegri áætlun - skuli hafa verið frestað um mánuð. Mig langar ekkert sérstaklega til að ösla snjóinn úti á svölum heima hjá mér og grilla. Ekki freistar það mín heldur að grilla hér úti í porti og hlaupa með matinn inn í glerskálann til að mynda hann þar. (Síðast þegar við mynduðum fyrir grillblaðið var komið fram í apríl en það var samt ekki beint grillveður. Ég stakk upp á að við mynduðum grillþættina einhvers staðar sunnar á hnettinum en það hlaut ekki hljómgrunn.)
Nú treystir maður bara á að sólin láti verða af því að skína einhverja apríldaga svo að hægt verði að drífa í myndatökum. Ef einhver er með hugmyndir, fyrirspurnir eða annað varðandi grilleldamennsku, komið því þá endilega á framfæri við mig og ég skal sjá hvað við getum gert. Hvort sem sólin skín eða ekki.