Ég þarf að losa mig við gamla ísskápinn þar sem ekkert hefur heyrst meira í unga manninum sem hafði lýst einhverjum áhuga á (má maður segja áhuga á? fjandinn, ég hefði ekki átt að fara að lesa SVP) að hirða hann. Nú er spurningin bara, á ég að hringja á bíl og borga fyrir að láta skutla skápnum í Sorpu eða á ég bara að setja hann í undirganginn, skilja eftir ólæst og treysta því að einhver losi mig við hann, eins og dýnuna um daginn?
Eða ætti ég kannski að reyna að hafa uppi á þessum manni, hann vantar greinilega ísskáp samkvæmt mbl.is: ,,Grunur vaknaði hjá starfsmönnum verslunar í austurborg Reykjavíkur á föstudag um að maður sem pantað hafði ísskáp og afhenda átti síðan seinna sama dag úti í bæ, væri með óhreint mjöl í pokahorninu. Því var haft samband við lögreglu og hún beðin að kanna málið. Lögreglan fylgdist síðan með þegar skápurinn var afhentur og hafði tal af viðtakanda en þá kom í ljós að hann hafði brotist inn í viðkomandi íbúð til að taka við skápnum þar. Enda kom í ljós að kortið sem greitt hafði verið með var stolið."