Ég er semsagt að fara norður núna á eftir og verð líklega ekki nærri nettengdum tölvum næstu dagana - þó er aldrei að vita. Tek reyndar tölvuna með en það er af því að ég ætla að reyna að vinna eitthvað. Skrifa einhverjar greinar og semja texta sem ég er búin að taka að mér að skrifa. Sennilega verður mér ekkert úr verki en það er allt í lagi að vera svolítið bjartsýn.
Þetta gæti annars orðið í síðasta skipti sem ég kem á Smáragrundina, allavega til að vera þar einhvern tíma. Gömlu hjónin eru nefnilega að byggja - það er að segja, þau eru að kaupa íbúð í blokk sem verið er að byggja fyrir aldraða suður í mýrinni rétt hjá Skaffó. Mér skilst að hún eigi að vera tilbúin næsta vor, hvort sem það gengur nú eftir.
Ég er nokkuð viss um að ég veikist fyrir norðan. Það gerist næstum alltaf. Móðir mín býr í gróðurhúsi (eða reyndar ekki, en húsið er stappfullt af pottablómum) og ég er örugglega með ofnæmi fyrir einhverju af þessum gróðri. Reyndar hefur ástandið skánað eftir að hún hætti að rækta tómata í glugganum á gamla herberginu mínu, svo að kannski leggst ég ekki í rúmið í þetta skipti. En ég er þegar byrjuð að hnerra, sennilega bara af því að ég veit á hverju ég á von. Einhverjum af þessum plöntum - til dæmis japanska trénu sem er fyrir löngu búið að yfirtaka eitt hornið í stofunni alveg - bjargaði hún reyndar upphaflega frá mér þegar ég var alveg að því komin að drepa þær. Einu pottaplönturnar sem þrífast hjá mér eru þær sem geta séð nokkurn veginn algjörlega um sig sjálfar og eru ódrepandi með öllu. Það veit mamma og það er gott, þá þarf ég ekki að óttast að hún reyni að koma einhverjum af þeim fyrir hjá mér þegar þau minnka við sig. Eins og pabbi er alltaf að reyna að gera við bækurnar.
Ekki að ég hafi neitt á móti bókum. Síður en svo. Pabbi er semsagt byrjaður að skipta bókunum á milli okkar systkinanna smátt og smátt og er margbúinn að bjóða mér hinar og þessar bækur sem ég væri meira en til með að eiga. En ég hef bara ekki pláss. Ég á nógu erfitt með að koma mínum eigin bókum fyrir og í hvert skipti sem ég eignast nýja bók (og það gerist oft), þá þýðir það einfaldlega að einhver önnur bók verður að víkja. Allavega ofan í kassa.
Þetta bjargast auðvitað allt þegar efnafræðistúdentinn flytur að heiman. Þá verður herberginu hans breytt í bóka/vinnuherbergi. Gallinn er að þetta er ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. Hann verður eins og Jesús Kristur: Býr heima fram yfir þrítugt og ef hann gerir eitthvað er það kraftaverk.