Það er að hefjast einhvers konar nafngjafarathöfn í garðinum hér beint fyrir neðan svalirnar og mér til skelfingar er verið að útbýta blöðum, sem ég geri ráð fyrir að þýði fjöldasöngur. - Jæja, það er nú kannski allt í lagi, mér sýnist þetta bara vera einn stakur texti.
Sjálf var ég að enda við að baka alveg hreint ljómandi góðar bláberjamúffur í morgunmatinn og uppskriftin kemur hér á eftir.
Breaking News: Nafn barnsins hefur nú verið afhjúpað (bókstaflega; Matthildur stóra systir svipti yfirbreiðslunni af skilti með nafninu). Nýi nágranninn heitir Júlía Óskarsdóttir.
Það er semsagt hægt að fá hræódýr amerísk bláber í Nóatúni núna (eða var fyrir helgi) og hvað sem um Betty Crocker má segja, þá eru þessar betri; þetta er samt algjör grunnuppskrift og hægt að breyta út af henni á ýmsan hátt. Múffurnar verða léttar og frekar lausar í sér en mjög góðar, sérstaklega á meðan þær eru enn volgar. Ég á múffuform úr málmi sem ég set pappírsformin í en það er hægt að baka þær eingöngu í pappírsformum (tvöföldum) en setja þá kannski aðeins minna deig í þau og hafa múffurnar ögn fleiri.
Bláberjamúffur
125 g smjör
1 egg, stórt
150 ml mjólk
1/2 tsk vanilla (essens eða dropar)
225 g hveiti
2 tsk lyftiduft
100 g sykur
150-200 g bláber
Ofninn hitaður í 210 gráður. Smjörið brætt og síðan er því hrært saman við egg, mjólk og vanillu. Hveiti, lyftidufti og sykri blandað saman og síðan hrært saman við mjólkurblönduna. Best er þó að hræra ekki meira en þarf til að deigið verði kekkjalaust. Bláberjunum blandað saman við með sleikju. Skipt á 12 múffuform og bakað í miðjum ofni í 18-20 mínútur, eða þar til múffurnar hafa lyft sér vel og eru gullinbrúnar. Bestar heitar eða volgar.