Eitthvað er Rómarveldisserían sem sjónvarpið er að sýna um þessar mundir að vekja áhuga yngri kynslóðarinnar, sýnist mér. Allavega er, í teiknimyndasögublaðinu sem Eldfjallið gefur út í félagi við tvær bekkjarsystur sínar (Sauðargæran er líka skrifaður fyrir blaðinu en framlag hans mun vera í lágmarki, hann er svona ,,silent partner") - þar er í nýjasta tölublaðinu smásagan Germanicus og Kaligúla. Ekki veit ég alveg hver þeirra þremenninganna á heiðurinn af sögunni en ættfræðin er ekki alveg á hreinu, Germanicus og Kaligúla eru þarna orðnir bræður og eru húðskammaðir af móður sinni fyrir að meiða hvorn annan. Klögumálin ganga á víxl en á endanum kemur upp úr dúrnum að þetta var allt í plati og enginn meiddi neinn. Svoleiðis gekk það víst ekki fyrir sig í Róm. Og ég sé ekki betur en öll fjölskyldan sé með köflóttar jólasveinahúfur.