Það á að vera eitthvert skítaveður á morgun. Og ég fór að óska þess að ég væri komin á suðlægari slóðir, enda var ég að fletta ferðaskrifstofubæklingum áðan - ekki að ég sé á leiðinni neitt en maður skoðar nú samt. Og þegar ég fór að hugsa um Miðjarðarhafið, þá var það fyrsta sem mér datt í hug saltfiskur. Sem er kannski skrítið því að hann er náttúrlega meira og minna kominn frá Íslandi. Og svo mundi ég eftir þessari saltfiskuppskrift.
Saltfiskur er matur sem ég fæ ekki eins oft og ég mundi vilja af því að ég er í minnihluta hér á heimilinu. - Já, ég veit, við erum bara tvö. Ég er samt oftast í minnihluta ef við erum ósammála um mat. En hér er allavega uppskrift að frekar góðu maríneruðu saltfisksalati sem má hafa sem forrétt eða setja á hlaðborð. Það er að vísu skilyrði að hafa góða tómata og þeir eru ekki auðfengnir akkúrat núna. En uppskriftin þolir alveg geymslu. Þetta er heldur ekki uppskrift sem passar við íslenskan vetur en hún er góð í sólskini.
Franskt saltfisksalat
350 g satfiskur, afvatnaður
1 rauðlaukur, saxaður smátt
1 stór hvítlauksgeiri, saxaður smátt
1 msk hvítvínsedik
3 msk ólífuolía
5-6 rauðir og vel þroskaðir tómatar, helst plómutómatar
2 rauðar paprikur
nýmalaður pipar
salt
Saltfiskurinn skorinn í mjóar ræmur. Rauðlauk, hvítlauk, ediki og 1 msk af olíu blandað saman í skál. Fiskurinn settur út í og blandað vel. Plast breitt yfir og látið standa í kæli í a.m.k. 6 klst, eða yfir nótt. Ofninn hitaður í 160 gráður. Tómatarnir skornir í helminga og fræin skafin úr þeim með teskeið. Raðað í eldfast fat og skurðflöturinn látinn snúa upp. Ólífuolíu dreypt yfir og kryddað með svolitlum pipar og salti. Sett í ofninn og bakað í um 1 klst. Þá er fatið tekið út en grillið í ofninum hitað. Paprikurnar skornar í fjórðunga og fræhreinsaðar. Fjórðungunum raðað á grind með hýðið upp og þeir grillaðir þar til hýðið er orðið svart. Settir í poka og látnir bíða smástund en síðan er hýðið plokkað af og paprikan skorin í mjórri ræmur. Tómatarnir og paprikuræmurnar sett í skálina með saltfiskinum, blandað vel og látið standa í kæli í nokkrar klukkustundir. Gott að bera fram með þessu brauð og ekki verra að það sé heitt.