Nú er búið að tilkynna tilnefningar til Óskarsverðlaunanna. Ég hef ekki séð eina einustu mynd af þeim sem þarna eru en það er nú ekkert skrítið í ljósi þess að það eru sennilega þrjú ár síðan ég fór seinast í bíó. Samt er ég ekki í neinu bíóverkfalli, þetta er bara einhvernveginn ekki inni í forritinu hjá mér.
Ég er reyndar alltaf á leiðinni að sjá Turnana tvo en það verður örugglega ekkert af því ... Kannski er ég bara komin á konfektpokaaldurinn. Reyndar er ég ekkert viss um að konfektpokar fáist ennþá en það var allavega þannig að þegar ákveðin tegund af myndum (les: kellingamyndir) var sýnd, þá þurftu bíóstjórar að birgja sig upp af konfektpokum, sem annars seldust nákvæmlega ekki neitt. Þeir runnu út þegar myndir eins og Gestaboð Babette voru í bíó. The Hours er líklega einmitt konfektpokamynd.