Uppskrift dagsins, og það þýðir ekki að ég ætli að fara að vera með eina uppskrift á dag. Bara þegar ég er í skapi til þess.
Ég sagði í gær að efnafræðistúdentinn væri ekkert fyrir saltfisk. Ég get aftur á móti alveg gefið honum nætursaltaðan fisk, grænsaltaðan eins og hann heitir hjá sumum þjóðum nema ég sé að rugla þeim mun meira. Og það er ágætt, því sjálf er ég mun meira fyrir nætursaltaða ýsu en venjulega, finnst hún miklu bragðmeiri og betri. Ég skola hana stundum snöggvast í köldu vatni áður en ég matreiði hana, ekki síst ef ég ætla t.d. að sjóða hana í sósu eins og í þessari uppskrift sem hér kemur, en það er ekki nauðsynlegt.
Maísinn passaði nokkuð vel hér en það mætti nota ýmislegt grænmeti í staðinn. Gerið mér bara einn greiða: Ekki kalla maísinn gular baunir. Þetta eru ekki baunir. Gular baunir er allt annað. Ég var að leita að gulum baunum í Nóatúni um daginn og hitti afar hjálplegan ungan starfsmann sem teymdi mig framhjá nokkrum rekkum og benti hróðugur á maísdósir. Gulu baunirnar sem ég hafði verið að spyrja um voru aftur á móti hálfum metra frá þeim stað sem hann stóð á þegar spurningin var borin fram.
Nætursöltuð ýsa með tómötum og maís
7-800 g nætursöltuð ýsuflök
1 laukur, saxaður smátt
2-3 tómatar, þroskaðir
3 msk hveiti
1 tsk paprikuduft
1 tsk kóríanderfræ, möluð
1/2 tsk túrmerik (má sleppa)
nýmalaður pipar
2 msk olía
300 g maískorn, fryst
250 ml matreiðslurjómi
e.t.v. svolítið salt
Fiskurinn roðflettur, beinhreinsaður og skorinn í bita. Laukurinn saxaður fremur smátt og tómatarnir helmingaðir, fræhreinsaðir og skornir í ræmur. Hveiti, paprikudufti, kóríander, túrmeriki og pipar blandað saman og fiskinum velt upp úr blöndunni. 1 msk af olíu hituð á pönnu (helst húðaðri) og laukurinn látinn krauma í henni við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til hann er meyr. Tekinn upp með gataspaða og settur á disk. 1 msk af olíu bætt á pönnuna, hitinn hækkaður og fiskurinn steiktur í 1-2 mínútur á annarri hliðinn. Snúið, tómötunum bætt á pönnuna og síðan er afganginum af hveitinu hrært saman við laukinn og hann settur aftur á pönnuna ásamt maísnum. Rjómanum hellt yfir, hitað að suðu og látið malla í örfáar mínútur, eða þar til fiskurinn er rétt soðinn í gegn og grænmetið heitt. (Einnig má taka fiskinn upp með spaða og setja á fat en sjóða sósuna og grænmetið í nokkrar mínútur í viðbót.) Sósan smökkuð til með pipar og e.t.v. salti. Borið fram t.d. með salati.