Fimm atriði um mig - ókei, en ég slít allar keðjur af prinsippástæðum og ætla ekki að senda boltann neitt áfram.
1. Vekjaraklukkan mín er stillt á 7:17. Ég vakna yfirleitt klukkan 7:12. Líka um helgar. Hefði þótt saga til næsta bæjar þegar ég var yngri. Þá gat ég sofið af mér hvaða vekjaraklukku sem var. Líka útvarpstæki stillt á hæsta mögulega hljóðstyrk. Og bjölluhringingar Guðjóns teoríukappa á göngum heimavistar MA. Og heilt partí í Stein's Breweryi hjá Steingrími Sigfússyni. Og nokkurn veginn hvað sem var ...
2. Mér finnst óþægilegt að vera með hringi á fingrunum og hef ekki sett upp hring síðan ég hætti að nota menntaskólahringinn minn, um það leyti sem ég útskrifaðist.
3. Ég hef aldrei stigið fæti á Austurland. Ég hef ekkert á móti Austurlandi eða Austfirðingum eins og ég hef margoft sagt Tótu, ég hef bara aldrei átt leið þangað.
4. Ég var ekkert sérstaklega góður kokkur fyrr en eftir að ég hætti að reykja. Þá fékk ég bragðskynið aftur. (Já, ég veit að fjöldamargir frábærir kokkar reykja eins og strompar. Ég er bara ekki svoleiðis.)
5. Ég treysti fólki. Líka þótt ég viti betur. Einu sinni var það kannski af því að ég er að upplagi frekar hrekklaus og grandalaus manneskja en þegar það rjátlaðist af mér komst ég að því að ég vildi samt halda áfram að treysta fólki. Þótt ég væri nokkuð viss um að það ætti eftir að koma mér í koll. Sem það hefur líka stundum gert. Ég held áfram að gera munnlega samninga þótt ég hafi oft rekið mig á að þeir eru ,,not worth the paper they're written on" eins og ágætur maður sagði. (Það sama mátti reyndar segja um skilnaðarsamninginn sem ég gerði við mann nokkurn sem ég var einu sinni gift og var hann þó skriflegur.) Og ég er vitavonlaus rukkari.