Það kemur allt með kalda vatninu ...
Eftir ítarlega vettvangskönnun (Nanna stendur á þvottahúsgólfinu, horfir á pípu- og kranafrumskóginn, klórar sér í hausnum og veit ekki sitt rjúkandi ráð) og skipulega skjalaleit (Nanna eyðir heilu kvöldi í að fara í gegnum uppsafnaða pappírsbunka síðasta árs í árangurslausri leit að teikningum af húsinu sem hugsanlega gætu sýnt hvar kaldavatnsinntakið er) og miklar og djúpar strategískar pælingar (Nanna veltir því fyrir sér hvort sé eitthvert vit í að hringja í pípara sem er ekkert endilega víst að gangi neitt betur en öðrum að finna kaldavatnsinntakið í húsið) hugkvæmdist mér að lokum snilldarráð sem væntanlega kemur að gagni í leitinni miklu að kalda vatninu:
Ég hringdi í fyrri eiganda íbúðarinnar. Sem var auðvitað með þetta allt á hreinu og vísaði mér á rétta staðinn.
Vonandi. Það kemur í ljós ...