Alvöru karlmenn borða ekki bökur, er það? Þeir voru nú samt fullt eins liðtækir og kvenfólkið við að hesthúsa bökurnar sem ég bar á borð í hádeginu eftir myndatöku í morgun. Þrjár grænmetis- og ein laxabaka, sem mér heyrðist hafa naumlega vinsældavinninginn yfir spínats- og kúrbítsbökuna.
Það er reyndar ekki bara af eintómri góðmennsku sem ég fóðra vinnufélagana á afrakstri tilrauna og myndatökusessjóna. Mér finnst líka gott að fá álit sem flestra, sjálf er ég sérvitur og það er ekkert endilega að marka minn persónulega smekk. Það er líka rétt sem gagnlega barnið nefndi á dögunum: Ég hefði aldrei orðið matargúrú ef ég hefði ekki löngum haft afar harða (og sérvitra) gagnrýnendur þar sem börnin og barnabörnin eru.
Slíkir gagnrýnendur geta þó verið of harðir (og sérvitrir). Það hefur ósjaldan komið fyrir að Boltastelpan hefur staðið frammi fyrir tuttugu rétta veisluborði sem ég hef útbúið, virðir allt saman fyrir sér og tilkynnir svo: ,,Ég ætla að fá brauðsneið."