Tímamótafrétt: Ég er núna ekki alveg eins mikil risaeðla og ég hef víst verið síðustu árin. Ég er nefnilega búin að fá mér GSM-síma.
Ég er lengi búin að berja höfðinu við steininn og neita að fá mér slíkt tól. Ég hef komist ágætlega af án þess. En auðvitað er það orðið þannig að maður er ekki lengur gjaldgengur nema geta gefið upp GSM-númer út um allt, mér skilst að á einhverjum veitingahúsum sé ekki tekið við borðapöntunum nema gefið sé upp GSM-númer, hvað þá annað, frestun á flugi er bara tilkynnt með SMS og svo framvegis.
Reyndar var ég alveg komin á fremsta hlunn með það í fyrra að fá mér síma. En þá vildi svo til að við á Gestgjafanum fórum fjórar saman í hádegismat niður í bæ. Í bílnum sátu hinar allar og töluðu hver í sinn gemsa. Og ég hugsaði ,,nei, ég ætla ekki að vera með í þessu" og hætti við.
En þetta er allt í lagi. Það er engin hætta á að ég muni alltaf eftir að kveikja á símanum. Eða taka hann með þegar ég fer eitthvað. Eða hlaða hann. Eða taki eftir því þegar hann hringir ...