Ég er svo mikill miðbæjarbúi - svo ég segi ekki miðbæjarrotta, held ég falli ekki alveg undir það hugtak - að ég geng tvisvar hvern virkan dag beint yfir sjálfan miðpunkt Reykjavíkur, á mótum Vesturgötu, Hafnarstrætis og Aðalstrætis. Það stendur meira að segja mjög oft þannig á skrefi að ég stíg beint ofan á málmbóluna í miðjunni á þessum miðpunkti.
Ekki veit ég hvort ég á einhvern þátt í að miðpunkturinn var merktur en svo mikið er víst að þegar ég var úti í Búdapest 1997, þá var ég einhverju sinni að ganga meðfram Dóná ásamt þáverndi forseta borgarstjórnar og fleira góðu fólki og þar rákumst við á tölustafinn 0, höggvinn eða steyptan í stein; ég fletti upp í minni traustu leiðsögubók og komst að því að þetta var opinber miðdepill Budapest. Ég stakk því að borgarstjórnarforsetanum að það væri tilvalið að finna miðdepil Reykjavíkur og merkja hann á einhvern hátt. Það þótti henni góð hugmynd. Einu eða tveimur árum síðar var miðpunktur Reykjavíkur svo merktur í gangstéttina fyrir framan Kaffi Reykjavík en ekki ætla ég að fullyrða að það hafi verið af mínum völdum.
Ég man að í þessari ferð kom ég með eina aðra uppástungu við borgarstjórnarforsetann. Þannig var að skúrinn í bakgarðinum hjá mér er metinn sem sérstök eign og fasteignagjöld greidd af honum sérstaklega eins og vera ber. Hann var þá óuppgerður og lítils virði og ég átti að borga af honum rétt um þúsund krónur á ári. Þessari upphæð var skipt í fimm greiðslur (eða eru þær sex?) og ég fékk því í hverjum mánuði fyrri hluta ársins tvo gíróseðla, þann hærri fyrir fasteignagjöld af íbúðinni en hinn, fyrir skúrinn, upp á 195 krónur - síðasta árið allavega, þetta var búið að vera svona í nokkur ár. Ég spurði Guðrúnu hvort ekki væri möguleiki að rukka fasteignagjöldin af skúrnum og öðrum ámóta verðlitlum eignum í einni greiðslu, það gæti ómögulega svarað kostnaði að skipta svona lágri upphæð niður á marga gjalddaga. Sjálfsagt hafa einhverjir fleiri verið búnir að reka hornin í þetta en svo mikið er víst að strax veturinn eftir var ég rukkuð um fasteignagjöld af skúrnum í einu lagi - heilan þúsundkall.
En um miðdepilinn: Ég tek aldrei strætó í vinnuna. En ef ég gerði það mundi ég ekki ganga yfir miðpunkt Reykjavíkur. Ég mundi aftur á móti ganga framhjá peepshowinu hans Geira á Maxims. Það er nú dálítið miðbæjarlegt líka. Meira svona miðbæjarrottulegt, kannski.