Bakan var bara ansi góð, meira að segja efnafræðistúdentinn, sem ekki er mikill bökumaður, borðaði hana með bestu lyst en skildi þó kantinn eftir. (Honum þykir bara bökudeig vont, þetta er ekki svona ,,real men don't eat quiche" attitjúd.) Bökubotninn var smurður með blöndu af sýrðum rjóma og dijonsinnepi (nota kannski aðeins minna ef ég geri svipaða böku aftur). Tómatarnir fræhreinsaðir (mikilvægt, annars verður bakan of blaut), skornir niður og raðað þétt á botninn. Nýmalaður pipar, Maldon-salt og timjan, bakað við 190°C í svona 45 mínútur. Gott salat með (klettasalatsblanda til dæmis) og hvítvínsglas.
Ég var annars að hugsa um á leiðinni í vinnunni hvað það væri nú mikill munur frá því sem áður var, þegar á þessum árstíma gerðist tvennt í tómatamálum; það varð allt í einu vonlaust að fá rauða tómata í búðum og verðið stórhækkaði af því að íslenskir tómatar komu á markað. Að undanförnu hafa verið á boðstólum ágætis íslenskir tómatar, knallrauðir og þroskaðir. Frekar dýrir að vísu, en þó ... Og svo fór ég inn í 10-11 í Austurstræti og hvað sé ég? Ljósrauða, grjótharða, íslenska tómata. Ég gekk út og fór í Krambúðina hér á Skólavörðustígnum. Þar voru þó til sæmilega þroskaðir og rauðir íslenskir tómatar, akkúrat það sem mig vantaði í bökuna. Ég vona bara að tómatarnir í 10-11 hafi verið undantekning en ekki regla. Þegar mig vantar tómata, þá vantar mig tómata til að nota núna, ekki eitthvað sem ég þarf að geyma dögum saman til að geta notað. (Og NB munið að tómatar eiga ekki að koma nálægt ísskáp.)
En það verður örugglega nóg til af tómötum til hér á næstunni, ég er að fara að vinna verkefni fyrir grænmetisbændur.