Við Boltastelpan vorum að spjalla saman á MSN í gær eins og við gerum gjarna þegar við erum báðar komnar heim og ég fór að segja henni frá því að ég hefði að gamni sett nafnið hennar inn í netpróf sem margir hafa verið að birta að undanförnu - þetta þar sem maður slær inn nafnið sitt og fær að vita líklegt framtíðarstarf, tekjur og þess háttar. Þegar ég setti bara inn fornafnið var útkoman ,,paid assassin" en ef ég setti fullt nafn eins og hún skrifar það jafnan var útkoman ,,fashion designer". Þetta fannst henni fyndið. Þá spurði ég hvort hún vildi heldur vera leigumorðingi eða tískuhönnuður. Það kemur örugglega engum sem þekkir barnið á óvart að hún svaraði samstundis ,,leigumorðingi".
Þá setti ég inn nafnið hennar eins og það er í þjóðskrá og fékk út ,,pizza delivery person". Sagði henni frá því og svarið var ,,mér líst best á það". Eins gott. Ég gat alveg skilið þetta með tískuhönnuðinn en ég hefði haft verulegar áhyggjur af barnabarninu mínu ef hún hefði frekar viljað vera leigumorðingi en pitsusendill.