Þær stundir koma í mínu lífi að mig langar ekki í neitt meira í heiminum en sérbakað vínarbrauð með fullt af eggjakremi í miðju.
Eða nei, þetta er nú ekki alveg rétt. En ef ég breyti þessu í ,,mig langar ekki í neitt meira af því fátæklega úrvali af bakkelsi sem fæst í 10-11 á Seljaveginum en sérbakað vínarbrauð ...", þá er þetta orðið nokkuð nærri lagi.
En ef það væru til nýbökuð pekanhnetuvínarbrauð þarna og ég setti þau inn í staðinn fyrir þessi sérbökuðu, ja, þá gæti þetta með ,,ekki í neitt meira í heiminum" alveg staðist öðru hverju.
Kannski ætti ég að hafa samband við Guðjón framkvæmdastjóra og segja honum að fara að selja pekanhnetuvínarbrauð í 10-11. Allavega á Seljaveginum. Fyrir mig. Svona upp á gamlan kunningsskap og í staðinn fyrir allan prófarkalesturinn hér áður fyrr ...
Eða kannski læt ég bara sérbökuðu vínarbrauðin duga þegar vínarbrauðslöngunin hellist yfir mig. Þótt þau séu ekki beinlínis nýbökuð.