Nýtt Séð og heyrt bíður mín þegar ég mæti í vinnuna og hvar er myndin af Stefáni Pálssyni sem var búið að lofa mér?
Hann er ekki á kvennakvöldi Fáks.
Ekki á frumsýningu píslarsögubíómyndarinnar hans Mels.
Ég get ekki komið auga á hann í níræðisafmæli bindindisfrömuðarins Árna Helgasonar í Stykkishólmi.
Ekki virðist hann hafa verið í siglingu með Árna Johnsen og fangaverðinum um Karíbahafið.
Ekki elti hann Friðrik Weisshappel til Köben - nei, æ, það er víst öfugt, Frikki er sá sem eltir.
Ekki er hann þáttakandi í Ungfrú Vesturland.
Ekki á frumsýningu með Lómatjarnarsystrum.
Ekki get ég séð hann á ræktunarsýningu Hundaræktarfélagsins og allir hundarnir eru meira að segja slétthærðir.
Hann gæti hafa verið á Spaðaballi en sést allavega ekki á myndunum þaðan.
Ekki er hann með Björk, Matthew og Ísadóru á ströndinni í Brasilíu.
Ekki hefur honum verið laumað inn í krossgátuna, þar eru bara Múhameð Ali og Dúi Landmark.
Jú, bíðum við! Hér er mynd af Stefáni, í sjónvarpsdagskránni! Pínupínupínulítil að vísu og hefur birst áður. En hún er þarna, því er ekki að neita. Segið svo að ritstjórar Séðs og heyrðs standi ekki við orð sín.