Ekki get ég kvartað yfir þjónustunni hjá amazon.co.uk núna (og hef reyndar aldrei séð ástæðu til). Í gærmorgun fékk ég tölvupóst frá þeim þar sem ég var látin vita að ekki væri víst að þeir gætu afgreitt pöntunina mína í tæka tíð fyrir jól, þar sem þeir gætu ekki ábyrgst að ein bókin í pöntuninni kæmi til þeirra fyrr en á fimmtudag. Þau báðust innilega afsökunar, bentu mér á að breyta pöntuninni ef ég vildi tryggja að hinar bækurnar færu af stað á undan, og sendu mér fimm sterlingspunda gjafabréf til að láta ganga upp í næstu pöntun. En nokkrum klukkutímum seinna kom annar tölvupóstur þar sem ég var látin vita að sendingin væri farin af stað - þá hefur bókin borist til þeirra í gær. Þannig að ég fæ sendinguna á þeim tíma sem ég gerði ráð fyrir þegar ég pantaði (sennilega á Þorláksmessu, annars strax eftir jól, skiptir engu máli þar sem engar jólagjafir eru í henni) og græði fimm pund. Þetta finnst mér góð þjónusta.