Á morgun er Þorláksmessa, sem þýðir bara eitt: Mitt árlega Þorláksmessuboð - eða öllu heldur opna hús, því að það eru allir velkomnir hvort sem ég hef boðið ykkur formlega eða ekki og hvort sem ég þekki ykkur í sjón eða ekki. Veitingarnar verða settar á borðið einhvern tíma um þrjúleytið og það er óhætt að koma hvenær sem er, fram yfir miðnætti. Þannig að ef þið eruð á Laugaveginum og eruð svöng, kaffiþyrst, kalt á tánum eða langar bara að koma og óska mér gleðilegra jóla, þá skuluð þið endilega líta inn.
Á borðum verða ýmsir fastir og hálffastir liðir, m.a. heimaverkuð skinka (ekki alveg jafnstór og í fyrra), léttsaltað og steikt lambalæri, tvíreykt hrátt hangikjöt, maríneraðir sjávarréttir (reyndar líklega eintómar rækjur þetta árið en ekki endilega verra fyrir það), kjúklingalifrarkæfa og sitthvað fleira, þar á meðal ávaxtasalat sem Boltastelpan ætlar að búa til alein. Heimabakað brauð og fleira. Og svo verður eitthvert bakkelsi, smákökur, jóladrumbur og fleira. Fer eftir hvað ég nenni að gera í dag.
Ég bý á Kárastíg 9a. Ég lofa engum skemmtiatriðum - Skari skrípó hefur reyndar einu sinni eða tvisvar gert töfrabrögð fyrir börnin en hann hefur þó ekki enn staðið við loforðið um að breyta Boltastelpunni og frænda hennar í svínaskinku. Svo á ég von á söngkvartett en þori ekki að lofa að hann syngi fyrir gesti. Ég stakk upp á að biðja túbuleikara nokkurn að koma með hljóðfæri sitt og spila jólalög á túbuna en það var fellt með öllum greiddum atkvæðum.
Verið velkomin.