Það eina sem ekki hefur verið alveg í lagi þessi jólin er jólahangikjötið, það reyndist svo brimsalt að það er varla hægt að borða það. Ég keypti nefnilega tvíreykt Húsavíkurhangikjöt í Nóatúni til að bera fram hrátt á Þorláksmessuborðinu, var búin að smakka á því og fannst það svo ljómandi gott að ég ákvað að vera með það soðið í dag líka. En það voru mistök, bæði er að þótt kjötið sé salt finnur maður það ekki eins þegar það er borðað hrátt í þunnum sneiðum, og svo held ég hreinlega að lærið sem ég var með í dag hafi bara verið meira saltað en hitt. Kjötið er reyndar gott á bragðið en bara allt of salt. Sennilega sker ég það sem eftir er í bita, frysti og nota svo smátt og smátt út í ýmsa rétti þar sem gott er að fá salt/reykbragð. Bæti svo efnafræðistúdentinum þetta upp með hefðbundnara hangikjöti á nýársdag. Annars er hann í hangikjötsveislu núna svo að það væsir ekki um hann.
Annars erum við búin að hafa það mjög gott, eyddum deginum í að horfa á Two Towers og borða nammi. Ég er búin að flakka á milli allra 45 stöðvanna á sjónvarpinu og finn ekkert áhugaverðara en Forensic Detectives á Discovery eða snóker-,,trick shot championships" á Eurosport. Ég er ekki beint í skapi fyrir það - hvorugt eiginlega - svo að ég er að hugsa um að kúra mig undir sæng með A Vote for Murder eftir David Wishart. Morð og pólitík í Latíum á fyrstu öld. Gaman.