Jæja, þá er laufabrauðsgerðin afstaðin, ég hnoðaði deig úr 3 kg af hveiti og úr því urðu samtals 95 laufabrauðskökur sem við systkinin skiptum á milli okkar (já, og eitthvað fékk gagnlega barnið líka). Yngri kynslóðin fór mjög rösklega af stað í laufabrauðsskurðinum en áður en mjög langur tími var liðinn voru flestir þeir sem ekki eru a.m.k. farnir að nálgast þrítugt horfnir inn í herbergi efnafræðistúdentsins til að spila tölvuleik (eða halda að þeir væru að spila, eins og einn ungur systursonur minn, sem ekki vissi að það er ekki hægt að tengja nema fjóra stýripinna við GameCube efnafræðistúdentsins; stýripinninn sem hann hamaðist á er af allt annarri tölvu, en drengurinn áttaði sig ekkert á því og hélt allan tímann að hann væri þátttakandi í leiknum).
Sauðargæran hafði reyndar engan áhuga á tölvuleikjum en þeim mun meiri á bakstri. Hann fékk deigbút að leika sér með og var lengi ánægður með hann. En þegar ég setti hrærivélina og hveitikrukkuna á gólfið við svaladyrnar vegna plássleysis á eldhúsbekknum sá hann sér leik á borði, hálffaldi sig á bak við gardínuna og sat þar drjúga stund og dundaði sér við að ausa hveiti úr krukkunni yfir í hrærivélarskálina og aftur til baka. Fólki þótti drengurinn einstaklega rólegur og þögull, sem hefði auðvitað átt að vekja grunsemdir, en þegar loksins var gáð að honum var hann orðinn hvítur eins og draugur af hveitinu. Móðir hans talaði um þegar hún kom hvað hann væri skítugur en amman var fljót að benda á að hveiti getur varla talist skítur.
Ég stóð svo við eldavélina og steikti allar kökurnar en hin stóðu í kring og dáðust að því hvað mér fórst steikingin vel úr hendi. Nei, reyndar voru þau að bíða eftir því allrabesta, sem laufabrauðssteikingin endar alltaf á: Skufsunum. Maður náttúrlega reynir, þegar kökurnar eru flattar út, að fletja þær eins þunnt út og mögulegt er en hafa þær þó ekki of stórar svo að afskurðurinn verði ekki allt of mikill. En einhver afskurður þarf þó að vera og honum er safnað saman á diski (gott að strá svolitlu hveiti yfir af og til eftir því sem diskurinn fyllist, svo að skufsurnar loði síður saman) og þegar búið er að steikja laufabrauðið eru skufsurnar settar út í, dálítill slatti í einu, steiktar, teknar upp með gataspaða og borðaðar heitar. Algjört nammi. Enda dytti varla nokkrum í þessari fjölskyldu í hug að kaupa útflattar og tilskornar kökur til að skera út. Þá væru engar skufsur.