Merkur atburður gerðist hér á Kárastígnum áðan. Reyndar talaði ég um það fyrir nokkrum vikum að þetta stæði jafnvel fyrir dyrum á næstu dögum en nú er búið að gera alvöru úr því. Það var semsagt skipt um nafnmiða á dyrabjöllunni og kannski tími til kominn, sá fyrri var búinn að vera úreltur í níu ár og af þeim nöfnum sem voru á þeim miða var bara mitt rétt - aðrir sem þar voru eru annaðhvort löngu fluttir burt eða hafa skipt um nafn.
Það tók um það bil tvær mínútur að skipta um miðann. Svipað og með læsinguna á baðherbergishurðinni, sem var búin að þurfa endurnýjunar við í mjög mörg ár en komst ekki í verk fyrr en í sumar. Nú er tveimur helstu áhyggjuefnum mínum undanfarnar Þorláksmessur rutt úr vegi: Að fólk rati ekki á rétta bjöllu eða að klósettdyrnar hlaupi í baklás þegar illa stendur á.
Með sama áframhaldi verð ég búin að setja upp loftlista í borðstofunni innan fárra ára.