Skeiðahitarar
Ég er alltaf að vonast eftir að ákveðinn hlutur dúkki upp á ebay og leita þess vegna reglulega að honum þar. Árangurslaust enn sem komið er. Þessi hlutur er úr emaleruðu silfri. Og það bregst ekki að ég slæ alltaf inn ,,email" í leitina, ekki ,,enamel".
Annars er ég líklega bráðum komin með nóg af ættarsilfri í bili. Mig vantar samt ennþá skeiðahitara. Þeir eru að vísu til en ég er alltaf að bíða eftir að finna einhvern á skaplegu verði. En þetta eru afskaplega eftirspurðir gripir (það eru virkilega til fleiri furðufuglar en ég) og nógir um boðið, þannig að verðið fer alltaf yfir það sem ég tími að borga.
Og þegar ég hef boðið í einhvern fæ ég alltaf a.m.k. einn eða tvo tölvupósta frá einhverjum sem eiga einmitt svona skeiðahitara og eru til í að selja mér, hvað vil ég borga fyrir, bara hafa samband og þeir selja mér hann off-ebay ... yeah, right. Ég er nú eldri en tvævetur.