Prime rib
Ég var svo svöng eftir að hafa setið langan Slow Food-hádegisfund á laugardaginn (jújú, það var borðað á fundinum - en það var bara talað svo mikið um mat ...) að ég fór og keypti vænt flykki af prime rib sem ég steikti ofan í fjölskylduna um kvöldið. Verulega rautt og gott. Með ofnsteiktum ratte-kartöflum, svörtum tómötum og sætuhrökkbaunum. Forrétturinn var tvenns konar; hráskinka með parmesanosti og úrvalsgóðu balsamediki annars vegar og reyktur lax með klettasalati og laxahrognum hins vegar. Eftirrétturinn var svo epla- og nektarínubaka með mascarpone-vanilluskyri.
Merkilegt nokk var smáafgangur af steikinni (einkasonurinn var eitthvað lystarlaus) og ég skar það niður í gærkvöldi ásamt nokkrum ratte-kartöflum og steikti á pönnu (notaði steypujárnspönnu til að þetta brúnaðist almennilega). Besti biximatur sem ég hef fengið mjög lengi.
Stundum er lífið bara þannig að mig langar í rauða og safaríka steik. ,,Stórt kjöt" eins og dóttursonurinn segir.
Núna ætla ég aftur á móti að vera heilsusamleg og borða grænmetisbuff frá Móður náttúru í hádegismat.