Stóru strákarnir
Dóttursonurinn tilkynnti mér það afar hróðugur í gær að nú færi hann ekki bara á eina fótboltaæfingu í viku, heldur tvær, og það sem meira er: á aðra æfinguna mæta bara stóru strákarnir, þessir sem eru fæddir 2001. Eins og hann. Reyndar er hann búinn að vera einn af stóru strákunum á Hagaborg í allan vetur svo að þetta var ekki alveg ný upplifun - en samt.
Systir hans hefur aftur á móti ekki getað mætt nema á örfáar æfingar undanfarna tvo mánuði vegna stöðugra veikinda. Hún fór reyndar í skólann í morgun en ég held að það hafi aðallega verið vegna þess að hún var orðin svo leið á að vera ein heima - ekkert við að vera, ekkert hægt að spjalla á msn á daginn af því að enginn skemmtilegur var veikur sagði hún, og sjónvarpsefni á daginn af afskaplega skornum skammti - hún kunni meira að segja kynningarnar á öllum vörunum hjá Vörutorgi utanbókar.