Svallarinn
Ég fann alveg greinilega reykjarlykt af höndunum á mér áðan og eitt andartak flaug mér í hug að kannski væri ég farin að lifa tvöföldu lífi, gengi í svefni á nóttunni og reykti og svallaði - það gæti verið skýringin á því að mér hefur stundum fundist á morgnana að undanförnu að ég væri ekki nægilega úthvíld, og einn morguninn vaknaði ég meira að segja með hausverk og hálfgerða timburmenn gjörsamlega að ástæðulausu eftir því sem ég best vissi - en svo sá ég nú ýmsa annamarka á þessari kenningu.
Svo mundi ég allt í einu eftir því að ég hafði skorið mér nokkrar sneiðar af reyktum magál ofan á flatbrauð í morgunmatinn. Sem er svall út af fyrir sig. En ég þarf að leita annarra skýringa á morgunsyfjunni. Til dæmis væri örugglega góð hugmynd að fara fyrr að sofa á nóttunni.
Og þá dettur mér í hug - finnst engum nema mér asnalegt þegar þýðendur þýða frasa eins og ,,two o'clock in the morning" beint og segja ,,klukkan tvö að morgni"?