Alifuglaeldamennskan í gær gekk alveg ljómandi vel og ég er með afganginn af ansi góðri önd í ísskápnum og ætla að elda mér einhverja góða kássu úr henni í kvöld. (Ef einhver hjá Fróða er að vinna um helgina og les þetta, þá er kalkúnaafgangur í ísskápnum.) Svo þarf ég að ganga frá uppskriftunum, skrifa eina eða þrjár greinar aðrar, svara nokkrum fyrirspurnum á vefnum ... en annars get ég bara slappað af um helgina, merkilegt nokk. Sauðargæran dóttursonur minn ætlar að koma í heimsókn og við ætlum að slæpast eitthvað. Baka köku ef við erum í skapi til þess, annars förum við á kaffihús.
Reyndar er ennþá til eitthvað af smákökum hér í boxi síðan ég var að gera jólamatreiðslubókina á dögunum. Kökurnar sem drengurinn bakaði fyrir kökublað Gestgjafans eru aftur á móti allar löngu búnar. Ætli við verðum ekki komin í skap til að baka fleiri (þ.e. ég; hann er örugglega í skapi til þess strax í dag) einhvern tíma fyrir miðjan desember. Þannig að það verða kannski einhverjar smákökur í Þorláksmessuboðinu.