(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

22.9.07

Tíu réttir

Ég er að undirbúa matarboð í kvöld. Var búin að lofa sjö réttum en mér sýnist stefna í að þeir verði frekar tíu ...

En allt undir kontról samt, skipulag er jú mín sterkasta hlið eins og mínir nánustu vita (sem springa úr hlátri þegar þeir lesa þetta) og undirbúingur gengur svo vel að akkúrat þessa stundina hef ég ekkert að gera. Var meira að segja búin að láta mér detta í hug gómsætan smárétt sem ég gæti skotið inn í, passaði akkúrat á milli hörpuskelfisksins með grænbaunamaukinu og butternut-kúrbítssúpunnar. En sá að mér. Tíu duga alveg.

Ég er nógu mikið átvagl til að fara létt með að borða tíu rétti. En ég veit ekki með gestina. Kemur í ljós.

Eitt hint samt: Í svona margrétta veislu - sem fólk er náttúrlega yfirleitt ekki að halda eða lenda í á hverjum degi - borgar sig að spara við sig brauðið. Á veitingahúsum er oft verið að halda brauði stíft að manni framan af máltíð og ef boðið er upp á nokkra smárétti á undan aðalréttinum freistast maður oft til að borða of mikið af brauði á meðan maður er enn svangur - og er svo orðinn allt of saddur af brauðáti þegar kemur að aðalréttinum og ég tala nú ekki um eftirréttinum.

Ég býð ekki upp á mikið af brauði.

|

21.9.07

Úr aftursætinu

Sauðargæran (á leið heim úr Kringlunni áðan): -Á ég að telja upp í einn afturábak?

Mamman og amman í kór: -Já! Endilega!

Mamman og amman bíða spenntar.

Sauðargæran: -Five.

Mamman og amman: -??? Nei, það er sko fimm ... á ensku.

Sauðargæran: -Já.

Amman: -En þú ætlaðir að telja upp í einn afturábak.

Löng þögn.

Sauðargæran: -Ég ætla að telja á ensku. Fimm og svo einn.

Móðirin: -Ó ... þá er það rétt. Fimm er five.

Amman: -Meintirðu að þú ætlaði að byrja á fimm og telja niður - eða sko upp - í einn?

Sauðargæran (hneykslaður á þessum fattlausu konum): -Já. Five ...

Svo taldi hann upp í einn með smáhjálp.

|

Grænmetisætubrúðkaup

Nú er ég búin að vera trúlaus í hátt í 40 ár og allir mínir afkomendur eru aldir upp í trúleysi; dóttursonurinn segist að vísu trúa á guð en ég tek það nú álíka alvarlega og þegar systir hans segist vera framsóknarmaður.

Faðir einkasonarins lét skíra hann að mér forspurðri þegar hann var tíu ára en hann er hins vegar ófermdur eins og móðir hans. Barnabörnin eru óskírð en Boltastelpan var fermd borgaralega í vor. Mér þykir það afskaplega góður valkostur fyrir börn eins og ég sagði frá þá.

Á dögunum var ég við óvenjulega jarðarför sem reyndar fór fram í kirkju og var stýrt af presti en var þó ekki trúarleg, nema hvað Salman Tamini flutti vers úr Kóraninum. En það vantar sárlega úrræði fyrir trúleysingja þegar guðlaust fólk eins og ég og mínir erum annars vegar og ég ætla rétt að vona að úr því verði búið að bæta áður en ég hrekk upp af.

Aftur á móti verð ég að taka undir með Jóni Yngva um
veraldlegar (en um leið kirkjulegar) hjónavígslur Siðmenntar. Mér þykja þær bæði óþarfar og misráðnar. Ég tala nú ekki um þegar þær eru bara eins og eftirlíking af kirkjulegri vígslu.

Það er eins og þegar grænmetisætur bera fram baunakalkúna. Þegar góður baunaréttur væri svo miklu betri og einfaldari.

|

Kaffileysi

Ályktun: Fólk sem ákveður að setja mikilvægan hluta af kaffivélinni í uppþvottavélina rétt áður en vinnufélagarnir (les: ég) mæta í vinnuna getur ekki verið mikið kaffidrykkjufólk sjálft.

Jæja, ég helli þá ekki ofan á mig á meðan.

|

20.9.07

Sátt við Símann

Ég hef séð að einhverjir hafa verið að kvarta undan þjónustu hjá Símanum að undanförnu. Kannski ég sé á einhverjum sérdíl en ég er hæstánægð fyrir mína parta. ADSL-ið mitt hefur verið að frjósa öðru hverju að undanförnu; nettengingin dettur út smástund og/eða sjónvarpsmyndin frýs í svona hálfa mínútu en kemur svo inn af sjálfu sér. Þetta gerir náttúrlega lítið til ef ég væri t.d. að horfa á Leiðarljós (þar dugir jú að horfa á einn þátt í mánuði til að vita hvað er að gerast) en verra þegar maður er að horfa á spennandi glæpaþátt – bíbb, myndin frýs í hálfa mínútu og þegar hún kemur aftur er þátturinn búinn og maður veit ekki hver var morðinginn. Og ef ég væri fótboltafan hefði sjónvarpið örugglega alltaf frosið akkúrat meðan mörkin voru skoruð. Þetta byrjaði fyrir svona mánuði síðan en hafði verið í lagi að mestu fram að því.

Þannig að á sunnudaginn hringdi ég í þjónustuver Símans (þurfti bara að bíða í 1 mínútu eftir svari) og sagði frá þessu, fékk mikla samúð; á mánudaginn hringdi maður og sagðist vera búinn að mæla línuna og það væri ekkert að henni þannig að það mundi koma maður til mín að skoða tengingarnar, í gær hringdi sá maður og spurði hvenær hann gæti komið – ég sagði honum að koma klukkan níu (og var viss um að það mundi ekki standast) – en á slaginu níu í morgun birtust tveir röskir símamenn, skiptu um snúru og tengingar (sem eru faldar að hluta á bak við ættarsilfursskápinn), límdu nýju snúruna upp í staðinn fyrir að láta hana liggja á gólfinu, sögðu mér að setja kóktappa (eða eitthvað) undir afruglarann svo að loftaði betur um hann og sneru að lokum við smásíunni, sem ég hafði tengt vitlaust á sínum tíma þótt það hefði ekki komið að sök fyrr.

Þannig að nú geri ég ráð fyrir að geta horft á glæpaþætti og sápuóperur án nokkurra truflana, þökk sé Símanum.

|

19.9.07

Eyru í kassa

,,Then I'll box his ears" sá ég þýtt áðan í sjónvarpinu sem ,,þá set ég eyrun á honum í kassa". Hmm ... nei, ekki alveg. Þýðandinn (sem ég veit ekki hver var) hefur líklega ekki lesið mikið af bókum eftir Georgette Heyer og aðra gamla rómanahöfunda; þetta þýðir bara að lemja einhvern eða dangla í hann og er frekar gamaldags og kellingalegt. ,,A real man would never say ,,box his ears"," sagði einhver einhverntíma, enda át viðmælandi þess sem viðhafði þessi orð þau upp eftir honum og spurði hve langt væri síðan hann hefði sofið hjá.

Ég man reyndar aldrei eftir að hafa heyrt neinn - hvorki karlmann né kvenmann - nota þetta orðatiltæki. Og þá rifjast upp fyrir mér að hún Hólka blessunin vandaði sig mikið við að kenna saklausum enskunemum í MA að segja ,,hold your horses for a while" og sagði að ætti sérlega vel við þegar maður þyrfti að biðja einhvern að hinkra við; Siggi stóri fór svo í siglingar um sumarið og beitti þessu orðatiltæki á hafnarverkamenn í Fleetwood eða einhvers staðar; sem voru nærri dauðir úr hlátri og sögðust ekki hafa heyrt nokkurn mann segja þetta síðustu 40 árin.

|

Ábyrgðarhlutverk og verðlaunaveiting

Tóta pönk (sem situr í næsta bás við mig hér í Síðumúlanum) fól mér mikið ábyrgðarstarf áðan, sem var að ýta á Send á tölvupóstinum hennar og senda út fréttatilkynningu um veitingu Íslensku barnabókaverðlaunanna. Sem er altsvo verið að veita núna.

Þar sem ég hef klikkað á átján síðustu skiptunum (sirka) sem ég hef átt að vekja einkasoninn með símhringingu þorði ég ekki annað en að láta vekjaraklukkuna í tölvunni minna mig á. Svo ég brygðist nú ekki trausti pönkarans.

En það var semsagt Hrund Þórsdóttir sem fékk verðlaunin fyrir bókina Loforðið.

|

18.9.07

Brussan

Ég opnaði ísskápinn áðan af þvílíkum brussugangi að það datt lítersflaska af appelsínusafa ofan á stóru tána á mér.

Það er sársaukafyllra en það kann að hljóma.

Í hádeginu missti ég karrísósu framan á mig (reyndar vænan bita af fiskibollu, sem var þakinn karrísósu). Til allrar hamingju var ég í einni þeirri flík minni sem minnst sér á af völdum karrísósu, sem var eins gott því ég átti von á ljósmyndara að taka mynd af mér.

Mér tókst, merkilegt nokk, að fá mér kaffi nokkrum sinnum án þess að subba út fötin mín. Hellti smávegis á borðið, reyndar, en það var kaffibrúsanum að kenna fremur en mér ... Örugglega.

Boltastelpan sat hér í kvöld í heimildaleit af því að hún var að gera ritgerð um ömmu sína. Ég steingleymdi að vekja athygli hennar á klunnaskap og breddugangi ömmunnar. Það mætti nú skrifa ritgerð um það.

|

Berir draumar

Í ljósi atburða síðustu vikna hef ég komist að því að ég er mun berdreymnari en ég hélt.

Ekki samt alveg bókstaflega, ég hef enn ekki farið buxnalaus af stað í vinnuna - hvorki óvart né viljandi - en það kemur kannski að því.

|

17.9.07

Þvottavélahurðir og sítrónustingir

Þvottavélaviðgerðamaðurinn var að koma og skella hurðinni á - með nýrri læsingu og alles. Og meira að segja gratís, því að mér tókst að finna ábyrgðarskírteinið eftir nokkra leit - það hafði lent í vitlausu hólfi í skjalakassanum mínum, þar sem ég geymi meðal annars (á maður að vera að segja frá svona?) alla Visareikninga allt frá 1986. Svo að það er ekki einfalt mál að finna hluti sem lenda á skökkum stað.

Ég á von á póstsendingu (ekki þeirri sömu og í síðustu og þarsíðustu viku, hún kom á fimmtudaginn nema þá var ég náttúrlega að djamma með einhverri menningarelítu, Thor og Coetzee og Jóni Val og einum tæplega þrevetrum sjóræningja, svo að ég þurfti að sækja hana sjálf á föstudaginn). Eníveis, ég kíkti á síðuna hjá póstinum til að rekja sendinguna og þar stendur ekki eins og venjulega ,,sett á útsendingarlista", heldur ,,sent úr húsi". Það hef ég ekki séð áður; það kemur ekki fram hvert þetta var sent ... Svo að ég hef smááhyggjur af sítrónustingjunum sem eiga að vera í þessari sendingu.

En líklega fer nú enginn að ágirnast sítrónustingi. Ólíklegt að nokkur viti hvað svoleiðis er.

|

Ég og kertin


Ég er ekki mikil kertamanneskja. Um daginn kveikti ég smástund á kerti. Svo á laugardaginn var það eitthvað fyrir mér og ég setti það út í gluggakistu. Ég varð nú ekki vör við að það væri mikil sól um helgina. Og ofninn undir gluggakistunni er ekkert það heitur. Samt var kertið svona þegar ég leit á það áðan.

Ég og kerti eigum bara ekki samleið.

|

Af viðgerðarmönnum og leigubílstjórum

Þvottavélaviðgerðamaðurinn kom í morgun. Og fór aftur með hurðina af þvottavélinni. Læsingin brotin, eins og mig grunaði. Svo á eftir að koma í ljós hvort þeir eiga læsingu (eða hurð) á lager eða hvort þarf að panta hana frá Ítalíu. Ég hef slæma reynslu af varahlutum sem þarf að panta frá Ítalíu.

Og ætli brotnar læsingar falli ekki utan ábyrgðar af því að þjösnaskap mínum verður kennt um allt saman?

Viðgerðamaðurinn hringdi með svo stuttum fyrirvara að ég þurfti að taka leigubíl heim. Leigubílstjórinn villtist - ég benti honum tvisvar á að þetta væri ekki besta leiðin en hann tók ekkert mark á mér, enda kom í ljós að hann hélt að hann væri að fara á Njálsgötuna.

Þetta ætlar ekki að verða minn dagur.

|

16.9.07

Ábyggilegur maður

Auglýsing úr Morgunblaðinu 9. okt. 1960:

Ábyggilegur maður um fertugt, sem ætlar að byggja á næsta ári, óskar að kynnast stúlku. Tilb. sé skilað á afgr. Mbl. fyrir 15. okt., merkt ,,1923".

Mikið væri nú gaman að vita hvort auglýsingin skilaði árangri. Og hvort maðurinn byggði.

|

Grúsk

Uppáhaldstengdasonurinn kom í dag og festi upp fyrir mig þrjú ljós; tvö í staðinn fyrir rússnesku ljósakrónurnar sem ég er búin að notast við síðan í fyrra (ég kemst alltaf nær og nær því að vera búin að klára þessa flutninga) og ljós á ganginum í staðinn fyrir það sem Sauðargæran og frændi hans stútuðu í fótboltaleik í vor. Þar fékk fimm ára Nannan sem býr inni í mér að ráða, sem sjaldan gerist þó; hún valdi ljós úr barnadeildinni í Ikea.

Annars er ég búin að skemmta mér við það í dag að fletta upp í Mogganum á Landsbókasafninu öllu sem ég get fundið um húsið sem ég bý í. Það elsta var dánartilkynning barns, það yngsta minningargrein um gamla konu - en þar á milli var ýmislegt að finna um íbúa hússins og það sem þeir tóku sér fyrir hendur - saumaskap, skjalafals, barneignir, einkakennslu, okurlánastarfsemi, kraftlyftingar, loðfeldasölu ...

Nokkur dæmi (og hér tók ég einungis það sem ég fann og tengist íbúðinni minni beint; ég tók þó út nöfnin en það voru sömu eigendur að íbúðinni í yfir 30 ár):

16. feb. 1935:
Hef kaupanda að nokkrum skuldabrjefum, eða nýjum lánum, næst á eftir veðdeild.
***, Grettisgötu 71. Sími 2487.


24. mars 1943:
Stúlka óskast í vist hálfan daginn.
***, Grettisgötu 71.

29. apríl 1944:
Sófi og 2 stólar, lítið notað, til sölu, með tækifærisverði. Grettisgötu 71, þriðju hæð.

6. sept. 1944:
Stúlka óskast í vist. – Þrent í heimili. Hátt kaup. ***, Grettisgötu 71 III.

26. jan. 1945:
Barnavagn til sölu. Til sýnis á Grettisgötu 71, III. hæð.

12. okt. 1948:
Herbergi endurgjaldslaust gegn því að gæta barna á kvöldin, eftir samkomulagi. Uppl á Grettisgötu 71, 3. hæð.

7. nóv. 1949:
Stúlka óskast fyrri hluta dags. Sjerherbergi. Uppl. á Grettisgötu 71, III. hæð.

28. okt. 1950:
Sniðin og saumaður dömu- og barnafatnaður. Til viðtals kl. 2-5 þriðjudaga og fimmtudaga Grettisgötu 71, 3. hæð. 2 hringingar. – Geymið auglýsinguna.

16. maí 1951:
Telpa óskast til að gæta barns á 2. ári. Uppl. á Grettisgötu 71, III. hæð.


9. des. 1951:
Model ballkjóll nr. 42 til sölu. – Upplýsingar Grettisgötu 71, 3. hæð.

12. feb. 1956:
Barnavagn. Notaður barnavagn til sölu. Upplýsingar á Grettisgötu 71, 3. hæð.

13. júní 1962:
Húsgögn. Vegna flutninga er til sölu góður sófi, 2 djúpir stólar, dívan, eldhússborð og kollar, innskotsborð o.fl. – Mjög ódýrt á Grettisgötu 71, 3. hæð.

10. júlí 1966:
Nauðungaruppboð sem auglýst var í 21., 22. og 24. tbl. Lögbirtingablaðsins 1966 á hluta í Grettisgötu 71 hér í borg, þingl. eign ***, fer fram eftir kröfu Jónasar A. Aðalsteinssonar lögfr. f.h. Árna Guðmundssonar á eigninni sjálfri, fimmtudaginn 14. júlí 1966 kl. 3,30 síðdegis.
Borgarfógetaembættið í Reykjavík. (Þetta er 3. hæðin.)

|