Af viðgerðarmönnum og leigubílstjórum
Þvottavélaviðgerðamaðurinn kom í morgun. Og fór aftur með hurðina af þvottavélinni. Læsingin brotin, eins og mig grunaði. Svo á eftir að koma í ljós hvort þeir eiga læsingu (eða hurð) á lager eða hvort þarf að panta hana frá Ítalíu. Ég hef slæma reynslu af varahlutum sem þarf að panta frá Ítalíu.
Og ætli brotnar læsingar falli ekki utan ábyrgðar af því að þjösnaskap mínum verður kennt um allt saman?
Viðgerðamaðurinn hringdi með svo stuttum fyrirvara að ég þurfti að taka leigubíl heim. Leigubílstjórinn villtist - ég benti honum tvisvar á að þetta væri ekki besta leiðin en hann tók ekkert mark á mér, enda kom í ljós að hann hélt að hann væri að fara á Njálsgötuna.
Þetta ætlar ekki að verða minn dagur.