Brussan
Ég opnaði ísskápinn áðan af þvílíkum brussugangi að það datt lítersflaska af appelsínusafa ofan á stóru tána á mér.
Það er sársaukafyllra en það kann að hljóma.
Í hádeginu missti ég karrísósu framan á mig (reyndar vænan bita af fiskibollu, sem var þakinn karrísósu). Til allrar hamingju var ég í einni þeirri flík minni sem minnst sér á af völdum karrísósu, sem var eins gott því ég átti von á ljósmyndara að taka mynd af mér.
Mér tókst, merkilegt nokk, að fá mér kaffi nokkrum sinnum án þess að subba út fötin mín. Hellti smávegis á borðið, reyndar, en það var kaffibrúsanum að kenna fremur en mér ... Örugglega.
Boltastelpan sat hér í kvöld í heimildaleit af því að hún var að gera ritgerð um ömmu sína. Ég steingleymdi að vekja athygli hennar á klunnaskap og breddugangi ömmunnar. Það mætti nú skrifa ritgerð um það.