Grúsk
Uppáhaldstengdasonurinn kom í dag og festi upp fyrir mig þrjú ljós; tvö í staðinn fyrir rússnesku ljósakrónurnar sem ég er búin að notast við síðan í fyrra (ég kemst alltaf nær og nær því að vera búin að klára þessa flutninga) og ljós á ganginum í staðinn fyrir það sem Sauðargæran og frændi hans stútuðu í fótboltaleik í vor. Þar fékk fimm ára Nannan sem býr inni í mér að ráða, sem sjaldan gerist þó; hún valdi ljós úr barnadeildinni í Ikea.
Annars er ég búin að skemmta mér við það í dag að fletta upp í Mogganum á Landsbókasafninu öllu sem ég get fundið um húsið sem ég bý í. Það elsta var dánartilkynning barns, það yngsta minningargrein um gamla konu - en þar á milli var ýmislegt að finna um íbúa hússins og það sem þeir tóku sér fyrir hendur - saumaskap, skjalafals, barneignir, einkakennslu, okurlánastarfsemi, kraftlyftingar, loðfeldasölu ...
Nokkur dæmi (og hér tók ég einungis það sem ég fann og tengist íbúðinni minni beint; ég tók þó út nöfnin en það voru sömu eigendur að íbúðinni í yfir 30 ár):
16. feb. 1935:
Hef kaupanda að nokkrum skuldabrjefum, eða nýjum lánum, næst á eftir veðdeild.
***, Grettisgötu 71. Sími 2487.
24. mars 1943:
Stúlka óskast í vist hálfan daginn.
***, Grettisgötu 71.
29. apríl 1944:
Sófi og 2 stólar, lítið notað, til sölu, með tækifærisverði. Grettisgötu 71, þriðju hæð.
6. sept. 1944:
Stúlka óskast í vist. – Þrent í heimili. Hátt kaup. ***, Grettisgötu 71 III.
26. jan. 1945:
Barnavagn til sölu. Til sýnis á Grettisgötu 71, III. hæð.
12. okt. 1948:
Herbergi endurgjaldslaust gegn því að gæta barna á kvöldin, eftir samkomulagi. Uppl á Grettisgötu 71, 3. hæð.
7. nóv. 1949:
Stúlka óskast fyrri hluta dags. Sjerherbergi. Uppl. á Grettisgötu 71, III. hæð.
28. okt. 1950:
Sniðin og saumaður dömu- og barnafatnaður. Til viðtals kl. 2-5 þriðjudaga og fimmtudaga Grettisgötu 71, 3. hæð. 2 hringingar. – Geymið auglýsinguna.
16. maí 1951:
Telpa óskast til að gæta barns á 2. ári. Uppl. á Grettisgötu 71, III. hæð.
9. des. 1951:
Model ballkjóll nr. 42 til sölu. – Upplýsingar Grettisgötu 71, 3. hæð.
12. feb. 1956:
Barnavagn. Notaður barnavagn til sölu. Upplýsingar á Grettisgötu 71, 3. hæð.
13. júní 1962:
Húsgögn. Vegna flutninga er til sölu góður sófi, 2 djúpir stólar, dívan, eldhússborð og kollar, innskotsborð o.fl. – Mjög ódýrt á Grettisgötu 71, 3. hæð.
10. júlí 1966:
Nauðungaruppboð sem auglýst var í 21., 22. og 24. tbl. Lögbirtingablaðsins 1966 á hluta í Grettisgötu 71 hér í borg, þingl. eign ***, fer fram eftir kröfu Jónasar A. Aðalsteinssonar lögfr. f.h. Árna Guðmundssonar á eigninni sjálfri, fimmtudaginn 14. júlí 1966 kl. 3,30 síðdegis.
Borgarfógetaembættið í Reykjavík. (Þetta er 3. hæðin.)