Grænmetisætubrúðkaup
Nú er ég búin að vera trúlaus í hátt í 40 ár og allir mínir afkomendur eru aldir upp í trúleysi; dóttursonurinn segist að vísu trúa á guð en ég tek það nú álíka alvarlega og þegar systir hans segist vera framsóknarmaður.
Faðir einkasonarins lét skíra hann að mér forspurðri þegar hann var tíu ára en hann er hins vegar ófermdur eins og móðir hans. Barnabörnin eru óskírð en Boltastelpan var fermd borgaralega í vor. Mér þykir það afskaplega góður valkostur fyrir börn eins og ég sagði frá þá.
Á dögunum var ég við óvenjulega jarðarför sem reyndar fór fram í kirkju og var stýrt af presti en var þó ekki trúarleg, nema hvað Salman Tamini flutti vers úr Kóraninum. En það vantar sárlega úrræði fyrir trúleysingja þegar guðlaust fólk eins og ég og mínir erum annars vegar og ég ætla rétt að vona að úr því verði búið að bæta áður en ég hrekk upp af.
Aftur á móti verð ég að taka undir með Jóni Yngva um
veraldlegar (en um leið kirkjulegar) hjónavígslur Siðmenntar. Mér þykja þær bæði óþarfar og misráðnar. Ég tala nú ekki um þegar þær eru bara eins og eftirlíking af kirkjulegri vígslu.
Það er eins og þegar grænmetisætur bera fram baunakalkúna. Þegar góður baunaréttur væri svo miklu betri og einfaldari.