Ég ætlaði að kaupa eitthvað hversdagslegt í fimmtudagskvöldmatinn handa fjölskyldunni (þótt börnin mín væru bæði búin að beita neitunarvaldi gegn óskum Boltastelpunnar um kálböggla; þá fær hún bara þegar við erum tvær einar í mat - já, og á meðan ég man, þá mun ég fjalla um kálböggla í Víðsjá einhverntíma á næstunni, nema ég sé þegar búin að því - ég er ekkert að fylgjast með hvenær hver þáttur er fluttur).
En þar sem ég var stödd við kjötborðið í Nóatúni rak ég augun í þetta einstaklega girnilega nauta-ribeye-flykki. Og stóðst það ekki. Og það þýðir auðvitað að það verður að vera almennilegur forréttur. Svo að ég fór heim og eldaði tómatlagaða kræklings- og rækjusúpu sem var bara ansi hreint góð, þótt ég notaði frosinn útlenskan krækling. Og svo bar ég olíu blandaða mustarðsdufti, rósmarínnálum, pipar og salti á kjötið, brúnaði það í hálftíma við 240°C eða svo, steikti það við 160°C í annan hálftíma og lét það standa undir álpappír þriðja hálftímann. Sauð bökunarkartöflur, helmingaði þær og skóf innanúr, stappaði innmatinn með gráðaosti, kotasælu og basilíku, fyllti þær og brúnaði undir grillinu. Púrtvínssveppasósa með, og klettasalat með plómutómötum sem voru búnir að standa í hlýjunni á eldhúsborðinu í viku, pekanhnetur, ólífuolía og sítrónusafi. Fjári gott, þótt ég segi sjálf frá. Þokkalegt rauðvín með.
Það átti ekki að vera eftirréttur en það þótti barnabörnunum ótækt þar sem þau fúlsuðu náttúrlega við súpunni. Svo að á meðan við borðuðum hana fengu þau að fara út og kaupa ís. Nema í miðri súpu hringir síminn.
Sauðargæran í símanum: -Amma, megum við kaupa búðing í staðinn fyrir ís?
Amman: -Búðing?
Sauðargæran: -Já, okkur langar meira í búðing.
Amman: -Hmm ...
Boltastelpan (tekur símann af bróður sínum): -Megum við það? Úlfur segir að það sé ný tegund ...
Amman (þykist viss um að þau séu að meina Royal pakkabúðing og það eru náttúrlega slík stórtíðindi að komin sé ný tegund í fyrsta skipti í sjötíu ár eða eitthvað að þetta þarf að kanna betur): -Ætli það ekki.
Eftir smástund hringir dyrabjallan og amman svarar í dyrasímann.
Boltastelpan: -Þetta erum við ...
Sauðargæran (grípur áhyggjufullur fram í): -Var í lagi að við keyptum þrjá, amma?
Amman: -Þrjá búðinga ... (uppgjöf) ... jájá.
Þau höfðu keypt súkkulaðibúðing, vanillubúðing og jarðarberjabúðing. Enginn þeirra er nú neitt verulega nýr af nálinni en þau þóttust aldrei hafa séð jarðarberjabúðing áður. Ég sagði Sauðargærunni söguna af því þegar kötturinn hélt að Stubbur kanína væri jarðarberjabúðingur. Það er reyndar lygasaga.
Þannig að við borðuðum þrenns konar Royalbúðing á eftir steikinni.