Norðurlandameistari fjórða árið í röð
Skylmingastúlkan tengdadóttir mín vann í dag Norðurlandameistaratitil í skylmingum með höggsverði í fjórða sinn. Núna segja þó fjölmiðlar frá þessu samdægurs; þegar hún vann titilinn í fyrsta skipti birtist fréttin viku seinna og þá bara af því að þau höfðu sjálf samband, sendu inn frétt og myndir.
Annars er hún búin að gera víðreist að undanförnu, keppa á mótum í Kína og Víetnam, Montreal, Las Vegas, Kúbu ... sennilega víðar, ég hef ekkert verið að fylgjast mikið með og er ekki með á hreinu hvert hún fer núna eftir Norðurlandamótið í Kaupmannahöfn. En ég held að það sé vika eða tíu dagar í að hún komi heim. Hún fékk náttúrlega góða úthlutun úr Afrekskvennasjóði Glitnis í vetur sem gerir henni kleift að ferðast þetta.
En hvernig stendur á öllu þessu íþróttafólki í kringum mig, það skil ég bara ekki ...