Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

27.4.07

,,Hraðflutningar"

Einhvers staðar sirka 50 kílómetra norður af Frankfurt í Þýskalandi er smábær sem heitir Staufenberg. Þar eru rúmlega 8000 íbúar. Ábyggilega huggulegur staður og allt það. Þar er einhver pakkamiðstöð DHL.

Einhvers staðar sirka 30 kílómetra suðvestur af Frankfurt er annar smábær sem heitir Saulheim. Þar eru eitthvað rúmlega 7000 íbúar. Ábyggilega vinalegasta þorp og svona. Þar er líka einhver pakkamiðstöð DHL.

Eina ástæðan til að ég veit þetta er að ég var að gá að því áðan hver fjandinn væri orðinn af bókasendingu sem ég átti von á frá Amazon.co.uk og var send af stað 5. apríl. Ég fór semsagt að gá hvort ég hefði ekki fengið svona handy-dandy númer til að rekja feril pakkans. Jújú, passar, og ég sló það inn og fékk þetta:

Track your package
Date Time Location Event Details
Apr 25, 2007 05:22:54 PM Saulheim DE Departure Scan
Apr 07, 2007 03:46:49 PM Staufenberg DE Departure Scan

Einmitt.

Semsagt, Amazon.co.uk sendir pakkann með DHL 5. apríl, hann fer til Staufenberg og fer þaðan aðfaranótt 7. apríl. Síðan spyrst ekkert til hans fyrr en í fyrradag, þegar hann fer frá Saulheim. Nú langar mig að vita:

1) hvar var hann í millitíðinni?
2) hvar er hann núna?
3) hvenær fæ ég hann?
4) á ég að borga fyrir svona þjónustu?

Ég pantaði reyndar tvær bækur í viðbót. Amazon skipti sendingunni og sendi hinar tvær seinna með venjulegum pósti. Þær lögðu af stað 6. apríl og ég fékk þær í hendur 10. apríl.

|