(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

13.8.05

Ég ákvað að nota daginn í að gera nákvæmlega ekki neitt. Það tókst alveg glettilega vel.

Ég sé hinsvegar ekki fram á að geta eytt morgundeginum á sama hátt, bæði þarf ég að skrifa nokkrar smáklausur (blaðið að fara í prentun á þriðjudag) og svo er orðið dálítið krítískt að laga til hér. Þarf að losa mig við fullt af bókum og slatta af fötum. Eða öfugt. Ég er nefnilega með söfnunaráráttu og á ákaflega erfitt með að losa mig við hvorttveggja - mig gæti langað að lesa þessa bók einhvern tíma aftur eða það er rétt hugsanlegt að einhvern tíma vanti mig einmitt þessa flík (þótt ég hafi ekki farið í hana síðan 1998, hva, það gæti verið að hún kæmist aftur í tísku).

Svo á ég auðvitað líka alltof mikið af eldhúsáhöldum, pottum, diskum, skálum, fötum og þess háttar. En ég er ekkert að fara að grisja það. Ónei.

|

Mér heyrðist Samúel Örn segja áðan að samkvæmt handbókinni hans væru rúmlega 2000 íbúar á Hollensku Antilleseyjum og þær væru undan strönd Ástralíu. Ég held að Samúel ætti að fjárfesta í nýrri handbók.

Þess má geta að ég á tvær matreiðslubækur frá Hollensku Antilleseyjum.

|

12.8.05

Ég var í hinu árlega afmæli Gurríar áðan.

Já, ég veit, fólk á almennt afmæli einu sinni á ári en fæstir halda upp á það af jafnmikilli rausn og Gurrí. Afmælin hjá henni eru líka sérstök að því leyti að þar má hitta fyrir ágætan þverskurð þjóðfélagsins - þar eru alþingismenn og lagerstarfsmenn, læknar og lækningamiðlar, rithöfundar og gagnrýnendur, laganna verðir og smákrimmar, leikarar, bændur, blaðamenn, búðarkonur, sjómenn, söngvarar, stripparar, dragdrottningar, kynskiptingar, draugabanar og fegurðardrottningar. (Reyndar man ég við nánari athugun ekki eftir neinni fegurðardrottningu í fljótu bragði en þær hafa örugglega verið þarna einhverntíma.)

Ýmsa sem þarna koma hittir maður bara einu sinni á ári og aldrei ella. Ég hef stundum heyrt fólk minnast á þetta og jafnvel draga í efa að sumir séu til utan afmælis Gurríar, það sé kannski í annarri vídd (hvernig ætti annars allt þetta fólk að komast fyrir í svona pínulítilli íbúð?). Ég veit ekki um það en ég veit allavega núna fyrir víst að anna.is er til, bæði í bloggheimum og afmælisheimum.

Ég held annars að Gurrí sér farin að finna fyrir aldrinum (ég má segja þetta, ég er eldri en hún), allavega hafði hún ekki undan að fullvissa fólk um að áletrunin á afmælistertunni væri grín og minna á að þær Madonna eru jafnöldrur.

|

Við vorum að tala um sólarlandaferðir í matartímanum áðan og þar á meðal fólk sem er mjög lítið ævintýragjarnt hvað mat varðar og borðar kannski bara á McDonalds, KFC og ámóta stöðum, sama hvar það er statt. Eða flýtir sér að finna ,,Íslendingastaðinn" og heldur sig þar það sem eftir er ferðar. Ekkert að því svosem ...

Mér datt í hug maður sem ég vann einu sinni með. Hann hafði farið til Majorka á hverju sumri í 16 ár. Gisti alltaf á sama hótelinu, lá í sólbaði við sundlaugina og fór ekki á ströndina. Borðaði á sama veitingahúsinu, drakk á sama barnum, verslaði í sömu kjörbúðinni. Fór aldrei neitt því það var jú alltaf boðið upp á sömu skoðunarferðirnar og hann var fyrir löngu búinn að sjá það allt. Allt í lagi með það en eitt sumarið átti hann afmæli rétt áður en hann fór og samstarfsfólkið ákvað að gefa honum leiðsögubók um Majorka. Svona til að sýna honum að það væri til eitthvað fleira á eynni.

Hann skildi bókina eftir heima.

|

Nanna, viltu súkkulaði? spurði ein samstarfskona mín rétt áðan og rétti að mér kassa af ítölsku Baci-súkkulaði með hnetufyllingu.

Hvers konar spurning er það nú eiginlega?

Ég sem sit hér og er að skrifa um Piemonte-ferðina í vor og er að farast úr Ítalíusöknuði ...

|

11.8.05

Falafel-uppskrift handa pönkaranum. Þessi uppskrift var í Gestgjafanum fyrir tveimur árum og er sett saman úr nokkrum falafeluppskriftum sem ég átti í fórum mínum en annars eru til ótal útgáfur.

Falafel

250 g kjúklingabaunir
1/2 laukur
6 hvítlauksgeirar
2 tsk kóríander
2 tsk kummin
1-2 msk steinselja, söxuð
safi úr 1/2 sítrónu
nýmalaður pipar
salt
2 msk hveiti eða heilhveiti
1 l olía til djúpsteikingar

Baunirnar lagðar í bleyti daginn áður en á að nota þær og látnar standa í kæli. Vatninu er svo hellt af, þær settar í pott, svo miklu köldu vatni hellt í pottinn að það fljóti a.m.k. 2 cm yfir, og baunirnar soðnar í 20 mínútur. Hellt í sigti og látið renna af þeim (en soðið e.t.v. geymt). Settar í matvinnsluvél ásamt lauk og hvítlauk og vélin látin ganga þar til allt er orðið að grófgerðu mauki. Kryddað með kóríander, kummini, steinselju, sítrónusafa, pipar og salti. Síðan er hveitinu hrært saman við og vætt í deiginu með baunasoði eftir þörfum (einnig mætti hræra einu eggi saman við). Deigið á að vera svo þykkt að auðvelt sé að móta það. Kúlur mótaðar úr því með hveitistráðum höndum - þær ættu að vera á stærð við golfkúlur eða örlítið minni. Olían hituð í potti eða á djúpri pönnu og bollurnar steiktar við góðan hita þar til þær eru dökkgullinbrúnar á öllum hliðum. Snúið oft á meðan svo þær steikist jafnt. Látið renna vel af þeim á eldhúspappír.

Það má líka nota niðursoðnar baunir (2 dósir) í bollurnar, en þó er betra að nota baunir sem ekki eru fullsoðnar. Í stað þess að djúpsteikja bollurnar má móta lítil buff og steikja í um 1 cm djúpu lagi af olíu þar til þau eru stökk á báðum hliðum.

|

10.8.05

The amount of time between slipping on the peel and landing on the pavement is precisely 1 bananosecond.

Ég hef runnið á bananahýði. Það er flughált í alvörunni. Ég datt samt ekki.

Ég rann líka einu sinni í gori á sláturhússgólfinu á Króknum þegar ég var að vinna þar. Þá datt ég náttúrlega. Munaði engu að ég hlúnkaðist beint ofan í stóran stamp með vatni. Hefði eins getað verið vambakerið.

Það minnir mig á söguna sem efnafræðistúdentinn sagði mér einu sinni af því þegar þjóðernissinninn var nærri drukknaður í kjötfarsinu.

Þessi færsla er annars að lenda út í einhverja vitleysu. Best ég hætti hér.

|

Var að smakka íslenskan sauða- og geitaost á kynningu í Osta- og smjörsölunni áðan. Hann var nú bara nokkuð góður og ég get alveg mælt með honum - hann á að fara í búðir í mjög takmörkuðu magni núna alveg á næstunni. Mér fannst samt skrítið að þetta var kynnt sem algjör nýjung og var ekki annað að skilja en þetta hefði aldrei verið gert áður en ég man eftir að hafa keypt bæði feta- og brie-ost úr sauðamjólk í Ostabúðinni fyrir nokkrum árum.

En ég tek öllum viðbótum í íslensku ostaflóruna fagnandi. Svo framarlega sem það er ekki enn einn bragðlausi fitulitli ,,skólaosturinn" eða enn ein útgáfa af brie/camemberteftirlíkingum.

|

9.8.05

Ég var að fletta DV í dag og rakst þar á opnu þar sem taldir voru upp tekjuhæstu menn landsins í allnokkrum starfsgreinum. Hvað sem er nú að marka það. Eitthvað um tvö hundruð nöfn. Ég renndi yfir þetta og tók allt í einu eftir því að þarna voru einir fimm samstúdentar mínir úr MA. Allt karlmenn auðvitað. Læknir, stjórnmálamaður, verkfræðingur, auglýsingamaður og prestur. Ekki í frásögur færandi nema ég sá enga þarna úr árgöngunum næstu á undan og eftir. Skrítin tilviljun því að ég held að stúdentahópurinn '77 hafi ekki þótt neitt sérlega líklegur til að komast í álnir. Nema síður væri.

En æi, hver hefði svosem spáð því að Stjáni Júl ætti eftir að verða bæjarstjóri á Akureyri?

|

Ég var að elda lambakjötsrétti í morgun. Þar á meðal rauðvínssoðnar lambaframhryggjarsneiðar. Alveg ekta, sagði franskmenntaði ljósmyndarinn okkar. Hættulega gott, sagði ritstjórinn sem er í megrunarátakinu. Þetta er nú bara ágætt, sagði ég.

Samt var ég alveg sammála Gísla ljósmyndara: það vantaði bara ódýrt franskt sveitarauðvín og góðan ost á eftir, þá hefði þetta verið fullkomið. Jú, og kannski aðeins vistlegra umhverfi en kaffistofuna hér hjá Fróða.

|

8.8.05

Bókin sem ég var að panta áðan reyndist ekki föl þegar til kom, sennilega hefur Liberos Centroamericanos Inc. verið búin að selja hana en trassað að skrá söluna í gagnagrunninn. Ansans, ég var búin að leita að þessari bók nokkuð lengi.

Í leiðinni sá ég að önnur bók sem mig vantar er núna fáanleg hjá fornbókasala fyrir 175 dollara. Útgefandinn er enn að auglýsa hana á 17 dollara. Ég hef hinsvegar gert nokkrar tilraunir til að panta hana hjá honum en hann vill ekki selja Overseas. Overseas er mikið mál fyrir suma ameríkana. Ég ætla samt ekki að kaupa hana á 175 dollara. Svo er reyndar líka einhver fornsali sem býður hana í gegnum amazon.com á 309 dollara og 23 sent og hún er merkt ,,low price". Hmmm. Kannski eru það ekki bara Overseas kaupendur sem eiga í vandræðum með að fá útgefandann til að selja sér bókina.

Ekki stórmál. Einhverntíma á ég eftir að detta ofan á þessar bækur á skaplegu verði. Eins og þegar ég fékk frumútgáfu af False Tongues and Sunday Bread á 16 eða 17 dollara, hún var þá yfirleitt föl á í kringum 200 annars staðar. Eins og fornbókasali sem ég les reglulega segir alltaf: ,,Munið að háa verðið sem þið sjáið er ekki endilega verðið sem bókin selst á, heldur verðið sem hún selst ekki á." Sem sagt, ef bókin er til á þessu verði og selst ekki strax, þá þýðir það einfaldlega að það er enginn tilbúinn að borga svona mikið fyrir hana ...

|

Ég er svoddan snillingur. Eða hitt þó ... Þurfti að fara áðan og kaupa inn fyrir eldamennsku á morgun. Ekki opnað í Krónunni fyrr en ellefu, ég þarf að byrja að elda fyrir níu. (Eða reyndar um fimmleytið í nótt en það er önnur saga.) Svo að ég ákvað að taka mér kvöldgöngu inn í Nóatún í Nóatúni.

Fann þar allt sem mig bráðvantaði. Fékk fína þjónustu í kjötborðinu. Fór svo á kassann. En þegar komið var að því að borga ... úbbs ... leitaði ákaft í nýja fína litskrúðuga veskinu sem ég keypti í Dogma ... ferskt lárviðarlauf frá Frakklandi ... en ekkert kortaveski. Skyndilega mundi ég að ég var að borga bók hjá abebooks áðan, þurfti að uppfæra kreditkortaupplýsingar og veskið lá við hliðina á tölvunni ...

Kvöldgöngutúrinn varð lengri en ég hafði reiknað með.

|

Fékk lífsmark frá efnafræðistúdentinum, ,,hæ, hæ, hopp og hí og hamagangur á Hóli" - ég geri ráð fyrir að það merki að hann hafi skemmt sér vel í Danaveldi.

Spurning hvort ég nenni nokkuð að vaka eftir að blessaður litli drengurinn minn komi heim til mömmu, hann er ekki væntanlegur fyrr en einhverntíma í nótt og ég þarf að vakna alveg eldsnemma í fyrramálið. Myndataka, undirbúningur fyrir aðra myndatöku, greinaskrif, tveir fundir (minnst), undirbúningur fyrir fund á miðvikudagsmorgun. Og eitthvað fleira.

Líklega má drengurinn kallast heppinn ef hann fær kvöldmat annað kvöld.

|

Gagnlega barnið og hennar fjölskylda eru flogin til Portúgals. Efnafræðistúdentinn er í Kaupmannahöfn. Ég er ein og yfirgefin.

Spurning hvernig best er að halda upp á það ...

|

7.8.05

Það er alltaf gott að koma heim í Dal. Líklega eru samt hátt í þrjátíu ár frá því að ég gisti þar seinast. Mig minnti endilega að árniðurinn væri hærri. En kannski er það bara þegar flóð er í ánni og maður heyrir skruðningana þegar stórgrýtið veltur eftir botninum. Mér skilst að það komi varla flóð í hana lengur svo heitið geti.

Mér var svolítið kalt í tjaldinu í nótt. Hefði kannski átt að athuga betur þetta með karlpeninginn. En það lagaðist þegar ég var komin í þrjár peysur og þrenna sokka.

Nautin í Djúpadal gerðust samkynhneigð í tilefni helgarinnar og fóru í sína eigin Gay Pride-göngu um kálgarðinn. Voru elt með rauðvínsglas í hönd.

Mér finnst í aðra röndina alltaf eins og allt eigi að vera óbreytt frá því sem það var þegar ég var lítil. Ég verð auðvitað að sætta mig við breytingar og að uppáhaldsleikstaðir eins og malargryfjan, Lambhúsið og Gíslhúsið hverfi, að Hólfinu sé breytt í tún og til standi að rífa það sem eftir er af gamla bænum. Það er eftirsjá í þessum kennileitum en þau höfðu skilað sínu hlutverki. En þegar ég áttaði mig á að ég hálfsaknaði asbestplötustaflans sem áratugum saman prýddi bæjarhlaðið og gegndi ýmsum hlutverkum í leikjum okkar, þá var eiginlega nóg komið. Ef ég á eftir að sálast úr asbesteitrun verður það af völdum þessa stafla.

Þetta var skemmtileg helgi.

|

Við ókum framhjá splundruðu hjólhýsi undir Hafnarfjalli áðan. Það var ljótt að sjá.

Mér skilst að það hafi verið ansi hvasst hér sumstaðar fyrr í dag. Eins gott að vindurinn stóð ekki upp á svaladyrnar hjá mér; efnafræðistúdentinn hafði nefnilega farið til Kaupmannahafnar á fimmtudaginn frá opnum svaladyrum. En ég get ekki séð að það hafi komið að sök.

Hann mundi hinsvegar eftir að hengja upp þvottinn áður en hann fór.

|