Ég ákvað að nota daginn í að gera nákvæmlega ekki neitt. Það tókst alveg glettilega vel.
Ég sé hinsvegar ekki fram á að geta eytt morgundeginum á sama hátt, bæði þarf ég að skrifa nokkrar smáklausur (blaðið að fara í prentun á þriðjudag) og svo er orðið dálítið krítískt að laga til hér. Þarf að losa mig við fullt af bókum og slatta af fötum. Eða öfugt. Ég er nefnilega með söfnunaráráttu og á ákaflega erfitt með að losa mig við hvorttveggja - mig gæti langað að lesa þessa bók einhvern tíma aftur eða það er rétt hugsanlegt að einhvern tíma vanti mig einmitt þessa flík (þótt ég hafi ekki farið í hana síðan 1998, hva, það gæti verið að hún kæmist aftur í tísku).
Svo á ég auðvitað líka alltof mikið af eldhúsáhöldum, pottum, diskum, skálum, fötum og þess háttar. En ég er ekkert að fara að grisja það. Ónei.