Ég var að fletta DV í dag og rakst þar á opnu þar sem taldir voru upp tekjuhæstu menn landsins í allnokkrum starfsgreinum. Hvað sem er nú að marka það. Eitthvað um tvö hundruð nöfn. Ég renndi yfir þetta og tók allt í einu eftir því að þarna voru einir fimm samstúdentar mínir úr MA. Allt karlmenn auðvitað. Læknir, stjórnmálamaður, verkfræðingur, auglýsingamaður og prestur. Ekki í frásögur færandi nema ég sá enga þarna úr árgöngunum næstu á undan og eftir. Skrítin tilviljun því að ég held að stúdentahópurinn '77 hafi ekki þótt neitt sérlega líklegur til að komast í álnir. Nema síður væri.
En æi, hver hefði svosem spáð því að Stjáni Júl ætti eftir að verða bæjarstjóri á Akureyri?