Grilldagur á Forlaginu
Ég lykta eins og - tja, eins og grillhús? Það fer allavega ekki á milli mála að ég var að grilla ofan í staffið í hádeginu. Kjúklingafillet maríneruð í sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og fleiru. Það voru keyptar pylsur líka; ég sagðist grilla þær samkvæmt pöntun en samt trúði ég því ekki að einhverjir vildu pylsur á eftir og þegar ég var loksins sest með minn eigin kjúkling sá ég að það voru fjórir eða fimm komnir í kringum grillið að kljást við pylsugrillunina.
Grillið (sem tilheyrir raunar húsráðendum í íbúðinni fyrir ofan en er notað með góðfúslegu leyfi þeirra) hefur verið töluvert brúkað í sumar og nú eru uppi áform um að fjárfesta í nýju grilli fyrir næsta sumar. Alveg er ég til með að standa grillvaktina nokkrum sinnum. Nema aðrir hljóta að ráða við pylsurnar. Trúi ekki öðru.