Svepparisotto
Hér er rísottóuppskriftin sem ég lofaði. Þetta varð reyndar dálítið annað en að var stefnt af því að mér leist ekki á grænmetið sem ég hafði ætlað að kaupa þegar til kom en ég sauð sætuhrökkbaunir (sugar snap peas) og bar fram með, hefði svosem alveg eins getað blandað þeim saman við. Og svo steikti ég kindafillet með þessu - kryddað með nýmöluðum pipar og salti, brúnað á báðum hliðum við háan hita í örlítilli olíu á steypujárnspönnu og pönnunni svo stungið í 200°C heitan ofn í fáeinar mínútur. Látið hvíla 3-4 mínútur áður en það er skorið. Þetta var ansi hreint gott.
Svepparísottó
1,2 l vatn (meira ef þarf)
2 msk Plantaforce grænmetiskraftur
15 g þurrkaðir villisveppir
50 g smjör
1 laukur
2 hvítlauksgeirar
500 g risottogrjón (ég var með arborio frá Merchant Gourmet)
150 ml hvítvín (og meira til að drekka á meðan maður hrærir)
nýmalaður pipar
salt (Maldon)
½-1 knippi basilíka
100 g nýrifinn parmesanostur
Vatn, grænmetiskraftur og sveppir sett í pott, hitað rólega að suðu og látið malla við hægan hita allan tímann á meðan rísottóið er búið til. Smjörið brætt í víðum potti. Laukurinn og hvítlaukurinn saxaður smátt og látinn krauma í nokkrar mínútur, þar til hann er farinn að mýkjast. Þá eru hrísgrjónin sett út í og hrært þar til þau eru þakin smjöri. Víninu hellt í pottinn, hrært og það látið sjóða alveg niður. Þá er sjóðandi soðið sett út í, hálf til ein ausa í einu, og hrært rösklega (næstum stöðugt allan tímann). Alltaf láta vökvann sjóða svo til alveg niður áður en meira er bætt út í. Kryddað með pipar og salti þegar líða fer á suðutímann. Grjónin eru hæfilega soðin eftir 20-25 mínútur, meyr en samt dálítið stinn í miðju og synda í eigin sósu – það er smekksatriði hvað rísottóið er fljótandi en ég vil hafa það nokkuð þykkt. Basilíkan söxuð og meiri hlutanum af henni hrært saman við um leið og síðasta soðinu. Þegar það er búið að sjóða niður er helmingnum af parmesanostirnum hrært saman við, potturinn tekinn af hitanum, lok sett yfir og látið standa í 2-3 mínútur. Smakkað til með pipar og salti, hellt í skál, meiri basilíku stráð yfir og borið fram.
Svo vísa ég bara í það sem ég hef áður skrifað um rísottó og hef engu við það að bæta.