Ég var beðin um að vera dómari í landshlutakeppni matreiðslumanna á Matur 2006 í dag. Reyndar var ég sett í dómnefnd sem fulltrúi Vesturlands, merkilegt nokk - en langamma mín var vissulega úr Dölunum.
Fimm keppendur, þríréttuð máltíð, það gerir fimmtán réttir. Reyndar eiginlega fleiri því sumir réttirnir voru jú margfaldir og það þurfti náttúrlega að smakka á öllu. Flest var bara býsna gott en sigur Ægis á Skólabrú, sem keppti fyrir Austurland, var vel verðskuldaður; bæði forréttur hans og aðalréttur skoruðu hátt hjá mér að minnsta kosti. (Reyndar sýndist mér á skorblöðunum að ég væri mun dómharðari en sumir aðrir í dómnefndinni - notaði allavega meira af einkunnaskalanum.) En þarna voru vissulega ýmsir sælkeraréttir á boðstólum, það vantaði ekki. Og allt úr íslensku hráefni - þarna var hrefna, bæði hrá og steikt, stökksteiktur silungur, rauðmagi, folald, lambahryggur, hreindýrapylsa, nautalund og nautatunga, þorskur, steinbítur ... skyr í ýmsum myndum, rabarbarabaka, berjabúðingar og alls kyns góðgæti.
Eftir fimmtán rétti var ég samt ekki saddari en svo að innan tveggja klukkutíma var ég sest að þríréttaðri lúxusmáltíð á básnum hjá Jóhanni Ólafssyni: Túnfisktartar, ostrur, hörpuskel og tígrisrækja, nautalund með súkkulaðisósu, creme brulee, panna cotta og súkkulaðibúðingur. Hvert öðru betra og ókeypis fyrir gesti og gangandi. Allt frá Jóhanni Ólafssyni - matur, borðbúnaður, borð, stólar, lýsing og það fylgdi meira að segja borðfélagi frá fyrirtækinu með í pakkanum. Við Gestgjafakonur urðum verulega impressed.
Og nei, ég er ekki að springa. Södd, jújú, en ekki pakksödd.