Engir átján réttir í dag, ónei. Reyndar var ég að átta mig á því áðan að ég hef satt að segja ekkert fengið að borða í dag nema smakkbita hér og þar. Það stendur samt til bóta því að ég er á leið á galakvöldverð á Sögu, sem er náttúrlega hið besta mál.
Svo mæti ég galvösk í fyrramálið á vaktina á sýningunni klukkan ellefu. Þarf svo á fund með nokkrum norrænum kokkum klukkan tólf. Það var reyndar búið að ákveða að hittast klukkan níu í fyrramálið en vísir menn (eða raunsæir) tóku í taumana og frestuðu honum til tólf. Enda verða væntanlega allir sem fundinn sitja á galadinnernum í kvöld.
Einkasonurinn stóð sig vel í kaffibarþjónakeppninni, eða ekki gat ég séð betur, fipaðist hvergi og var vel innan tímamarka. Sjálfur var hann eitthvað óhress með einn drykkinn sinn. Frjálsi drykkurinn hans, sem inniheldur m.a. píputóbakssíróp, tókst þó mjög vel sýndist mér og var bara ansi góður (ég fékk að smakka). En það kemur í ljós í kvöld hvort hann kemst áfram í úrslitakeppnina á morgun.